Rafíþróttir

XY áfram í Stórmeistaramótið

Snorri Rafn Hallsson skrifar
risi-ld-2022-individual-result-1920x1080--a3788e71-b453-470a-b3c4-c1729d233cee

Stórskemmtilegt einvígi XY og Kórdrengja endaði með sigri XY.

Fjögur lið úr flokki hinna sigruðu á Áskorendamótinu fengu í gærkvöldi eitt tækifæri til viðbótar til að komast á Stórmeistaramótið í CS:GO sem hefst 23. apríl. Um fyrirkomulag mótsins má lesa betur hér, en hver viðureign er “best-af-3”.

Á laugardagskvöldið höfðu Saga og Ten5ion komist áfram en Haukar og Samviskan fallið úr leik. Eftir stóðu því XY, Kórdrengir, Fylkir og BadCompany.

Í kortavalinu völdu Kórdrengir Inferno og XY Ancient og eftir bönnin stóð Nuke eitt eftir sem úrslitakort.

Leikur 1: Inferno

XY hóf leik í vörn. Höfðu þeir mikla yfirburði í upphafi fyrri hálfleiks og náðu 5 lotu forystu snemma. Kórdrengir voru stefnulausir í aðgerðum sínum og þrátt fyrir að koma auga á veikleika í vörn XY náði liðið ekki að nýta sér þá og staðan því 11–4 fyrir XY í hálfleik.

Ekki var varnarleikur Kórdrengja upp á marga fiska, náðu þeir einungis einni lotu áður en XY lokaði leiknum 16–5.

Leikur 2: Ancient

Blazter fór á kostum í spretti þar sem Kórdrengir náðu fyrstu 5 lotunum. Þá var komið að XY að leika sama leik og voru þeir því ekki lengi að jafna í sókninni. Þá skiptust liðin á lotum og var leikurinn í járnum allt þar til Kórdrengjum tókst að vinna tvær lotur í röð og senda XY í spar í stöðunni 13–11, og fylgja því eftir með tveim lotum til viðbótar. 

Sigurinn var svo gott sem kominn í höfn hjá Kórdrengjum. XY var þó ekki á því máli og náði að minnka muninn í 15–14. Kórdrengir fóru þá sem eldur í sinu um kortið, komu sprengjunni hratt fyrir og tryggja sér sigurinn, 16–14.

Leikur 3: Nuke

Staðan í einvíginu var því jöfn og þurfti þriðja leikinn til að skera úr um sigurvegara. . Aftur fóru Kórdrengir vel af stað, unnu hnífalotuna og fyrstu tvær eftir það. XY svöruðu þá um hæl og jöfnuðu og komust yfir með snyrtilegum lotum og öflugri sókn. XY hélt forskotinu út hálfleikinn staðan í hálfleik 9–6 fyrir XY. 

Ekkert lát var á yfirburðum XY sem hleypti Kórdrengjum hvergi nærri sér og raðaði inn lotunum. Lokastaðan í leiknum 16–7 fyrir XY og 2–1 fyrir XY í einvíginu.

Kórdrengir eru því dottnir úr leik en XY fara sáttir inn í Stórmeistaramótið. Sýnt verður frá mótinu á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.






×