Innherji

Skoða tvö­földun á fram­leiðslu­getu kísil­versins á Bakka

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Framleiðslugetan er í dag um 32 þúsund tonn á ári.
Framleiðslugetan er í dag um 32 þúsund tonn á ári. VÍSIR/VILHELM

Stjórnendur kísilversins á Bakka hafa til skoðunar hvort ákjósanlegt sé að tvöfalda framleiðslugetu kísilversins á næstu árum í ljósi batnandi rekstrar og markaðsaðstæðna. Þetta staðfestir Rúnar Sigurpálsson, forstjóri PCC Bakka, í samtali við Innherja.

„Þetta er eitthvað sem við erum að skoða en það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun,“ segir Rúnar. Verksmiðjan, sem býr yfir tveimur ljósbogaofnum, var hönnuð með framtíðarstækkun í huga. Framleiðslugetan er um 32 þúsund á ári en heimilt er, samkvæmt starfsleyfinu frá Umhverfisstofnun, að framleiða 66 þúsund tonn í fjórum ljósbogaofnum.

Í ársfjórðungsskýrslu þýska félagsins PCC, sem er aðaleigandi PCC Bakka, kom fram að kísilverið skilaði hefði skilað jákvæðri rekstarafkomu í fyrra eftir „uppörvandi frammistöðu“ á síðasta ársfjórðungi.

„PCC náði að skila jákvæðri rekstrarafkomu á fjórða ársfjórðungi. Heilt yfir var verksmiðjan réttum megin við núllið á árinu 2021, að minnsta kosti hvað varðar EBITDA, og rekstrarniðurstöðurnar voru því mun betri en árið á undan og umfram væntingar okkar,“ sagði í skýrslunni.

Miklar tafir og erfiðar aðstæður á hrávörumörkuðum einkenndu rekstur kísilversins eftir gangsetningu á vormánuðum ársins 2018. Auk þess kom kórónufaraldurinn illa niður á kísilverinu á árinu 2020 – framleiðslan var stöðvuð og 80 manns sagt upp – og nam tap ársins alls 53 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 6,9 milljarða króna.

Kísilverið var endurræst í apríl í fyrra og á seinni hluta ársins naut það góðs af hækkandi verði kísilmálms.

„Framleiðsla kísilmálms í verksmiðjunni var mikil og jafnframt stöðug á fjórða ársfjórðungi. Auk þess, sökum minni útflutnings frá Kína, hélt verð á hvert tonn kísilmálms áfram að hækka í upphafi fjórðungsins og var það um tíma meira en fimm sinnum hærra en á fjórða ársfjórðungi 2020,“ sagði jafnframt í skýrslunni.

„Verðkúrfan flattist út á síðustu vikum ársins 2021 en þrátt fyrir það var verðið áfram hátt um og eftir áramót.“

Kísilverið, sem veltir nú um 2 milljörðum króna á mánuði, hefur endurráðið alla starfsmenn sem sagt var upp í kórónufaraldrinum og er starfsmannafjöldinn nú um 150 manns.

Þýska félagið á 86,5 prósent hlut í kísilverinu en Bakkastakkur, sem er fjárfestingafélag í eigu Íslandsbanka og íslenskra lífeyrissjóða, fer með 13,5 prósenta hlut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×