Lífið

Illt alls staðar og vaknaði á gólfinu heima hjá sér

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Mari örmagna með verðlaun sín eftir magnað afrek.
Mari örmagna með verðlaun sín eftir magnað afrek. Guðmundur Freyr Jónsson

Bakgarðshlaup Náttúruhlaupa lauk í nótt þar sem hlaupakonan Mari Jaersk bar sigur úr býtum. Hún segist hafa verið mjög þreytt á tímabili en að það hafi einfaldlega ekki staðið til boða að gefast upp.

Hlaupið hófst að morgni laugardags og lauk rétt fyrir klukkan fjögur í nótt þegar Mari kom í mark eftir 43. hringinn. Hringurinn sem hlaupararnir þurftu að hlaupa á hverri klukkustund var 6,7 kílómetrar og því endaði Mari á að hlaupa rúmlega 288 kílómetra á innan við tveimur sólarhringum.

Í viðtali við umsjónarmenn Bítsins á Bylgjunni í morgun viðurkenndi Mari að þreytan hafi verið byrjuð að segja til sín um miðjan dag í gær.

„Andlega heilsan var þá bara mjög góð en fljótlega eftir þennan tímapunkt var ég farin að hlakka til að einn af þessum gaurum dytti út en það bara gerðist allt rosalega hægt,“ segir Mari.

Í gærkvöldi hafi hún síðan orðið verulega þreytt, enda lítið búin að hvílast.

„Ég labbaði inn í hús og var bara að grenja við vinkonur mínar og öskra á þær að ekki snerta mig og bara ógeðslega pirruð,“ segir Mari um ástandið í gærkvöldi. „Þegar maður er orðinn þreyttur þá verður maður bara klikkaður í hausnum.“

Örmagna og bókstaflega rotaðist

Það kom þó að því að hlaupinu lauk þegar Þorleifur Þorleifsson, sem bar sigur úr býtum í Bakgarðinum 2020, sneri við eftir fimmtán mínútur á síðasta hringnum.

Þorleifur ofurhlaupari kominn í lárétta stöðu eftir ótrúlegt afrek.Guðmundur Freyr Jónsson

Líkt og við var að búast var Mari alveg búinn á því þegar hún kom heim og varð ákveðið atvik til þess að vinkona hennar dreif sig til hennar í morgunsárið eftir hlaupið.

„Ég hef farið á klósettið þarna í millitíðinni og þegar ég vaknaði þá var ég bara frammi í stofu nakin á gólfinu af því að ég hef bara rotast, ekki getað staðið upp og farið að sofa á gólfinu,“ segir Mari en hún slasaðist sem betur fer ekki að eigin sögn.

Illt alls staðar

Aðspurð um hvort hún fái harðsperrur eftir svona hlaup segir Mari að líkaminn sé bara alveg búinn á því. 

„Mér líður eins og einhver sé búinn að reyna að taka vöðvana eða húðina frá líkamanum í alla nótt, þér er bara illt alls staðar,“ segir Mari.

Þorleifur og Mari þegar baráttunni var loks lokið.Guðmundur Freyr Jónsson

Nú tekur við hvíld það sem eftir er vikunnar og er Mari stolt af árangrinum. Að einhverju leyti hafi það verið þrjóskan sem kom henni áfram um helgina þar sem það var ekki í boði að gefast upp.

„Þegar að vinir manns eru búnir að vera að þurrka rassinn á manni í tvo sólarhringa og allir að koma frá öllum stöðum að halda með manni, þá er engin leið til að gefast upp,“ segir Mari.


Tengdar fréttir

Mari Jaersk vann Bakgarð 101 eftir 43 hringi

Mari Jaersk bar sigur úr býtum í Bakgarði 101 en hlaupinu lauk rétt fyrir klukkan 4 í nótt. Mari hljóp 43 hringi, samtals 288,1 km, en í öðru sæti var Þorleifur Þorleifsson, sem hóf 43. hringinn en snéri við eftir um 15 mínútur.

Einvígi Mari og Þor­leifs heldur áfram eftir 255 kíló­metra

Keppnishlaupið Bakgarður 101 stendur enn yfir og kláruðu Mari Jaersk og Þorleifur Þorleifsson hring númer 38 skömmu fyrir klukkan ellefu. Þar með hafa þau hlaupið 254,6 kílómetra á seinustu 37 klukkustundum en keppnin hófst klukkan tíu í gærmorgun. Þau hlaupa nú hring 39 en keppninni lýkur ekki fyrr en einn keppandi stendur eftir.

Standa tvö eftir í Bak­garði 101 og hafa hlaupið yfir 221 kíló­metra

Tveir keppendur standa eftir í keppnishlaupinu Bakgarður 101 af þeim 122 sem hófu leik í klukkan tíu í gærmorgun. Bæði Mari Jaersk og Þorleifur Þorleifsson hafa nú klárað 33. hringinn sinn og eru byrjuð á þeim næsta. Þar með eru þau búin að hlaupa rúman 221,1 kílómetra frá því að keppnin hófst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.