Lífið

Nem­endur himin­lifandi á fyrstu vor­há­tíðinni í tvö ár

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Árni Sæberg skrifa
Friðrik Dór tróð upp á hátíðinni við mikil fagnaðarlæti viðstaddra.
Friðrik Dór tróð upp á hátíðinni við mikil fagnaðarlæti viðstaddra. Stöð 2

Skólaslit voru víða í grunnskólum í dag og fögnuðu nemendur því margir að geta haldið út í sumarið. Um fjögur hundruð nemendur í Breiðagerðisskóla voru þeirra á meðal. Eftir að skóla var slitið þar í dag var hverfishátíð haldin á lóð skólans þar sem fjöldi fólks kom saman.

Nokkur ár eru síðan að svo margir hafa komið saman á skólalóðinni en vegna kórónuveirufaraldursins voru engar vorhátíðir síðustu tvö árin. Skólastjórinn var því að vonum glaður með að geta fyllt lóðina aftur af foreldrum og börnum eftir langt hlé.

„Þetta er virkilega ánægjulegt,“ sagði Þorkell Daníel Jónsson skólastjóri í Breiðagerðisskóla þegar rætt var við hann í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Foreldrafélagið hefur staðið fyrir svona viðburði ég veit ekki hvað lengi, allavega síðan ég hef verið hér. Ekki síðastliðin tvö ár, en núna. Þannig að þetta er alveg dásamlegt,“ sagði hann.

Þorkell segir börnin hafa mjög gaman af hátíðum sem þeirri sem fór fram í dag. Ánægja barnanna er bersýnileg í myndskeiðinu hér að ofan.

„Svo vorum við að senda fjögur hundruð börn út í sumarið, einmitt í dag, þannig það er virkilega ánægjulegt að geta lokið deginum síðan með svona gleði,“ segir hann.

Á hátíðinni kom fram tónlistarfólk, gefin voru blóm og tré, sett var upp sérstök vatnsrennibraut, matarvagnar voru á staðnum og svo var þar líka að finna bókabílinn.

„Við erum alltaf að hvetja krakkana til þess að lesa og viljum að þau lesi í sumar,“ sagði Þorkell sem er þess fullviss að börnin mæti endurnærð aftur í skólann næsta haust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.