Ólafur kemur til Zürich frá Montpellier í Frakklandi eftir erfitt tímabil hjá franska liðinu. Meiðsli settu þar stórt strik í reikninginn og Ólafur lék ekkert með Montpellier seinni hluta leiktíðar, eftir að hafa endað í 6. sæti með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í janúar.
Hann stóðst hins vegar læknisskoðun hjá Zürich í dag og verður væntanlega kynntur til leiks hjá félaginu síðar í dag eða á morgun.
Samkvæmt heimildum Vísis bauðst Ólafi einnig að fara til svissnesku meistaranna í Kadetten Schaffhausen, undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar, en hafnaði því enda voru viðræður við Zürich þá langt komnar.
Áður en Ólafur fór til Frakklands í fyrra gerði hann garðinn frægan hjá sænska félaginu Kristianstad um árabil, þar sem hann var meðal annars fyrirliði. Hann hefur einnig leikið með Hannover-Burgdorf í Þýskalandi og Nordsjælland og AG Kaupmannahöfn í Danmörku en þessi 32 ára stórskytta hóf hins vegar ferilinn hjá FH.
Ólafur verður þriðji Íslendingurinn hjá Amicitia Zürich því Harpa Rut Jónsdóttir, sem áður lék með Zug í Sviss, og markvörðurinn Sunna Guðrún Pétursdóttir úr KA/Þór sömdu báðar við félagið fyrir skömmu.
Karlalið Zürich endaði í 5. sæti svissnesku úrvalsdeildarinnar í vor en komst í undanúrslit úrslitakeppninnar. Þar tapaði liðið hins vegar fyrir lærisveinum Aðalsteins Eyjólfssonar í Kadetten Schaffhausen sem svo lönduðu meistaratitlinum.
Annar Íslendingur verður í herbúðum Kadetten á næstu leiktíð því Óðinn Þór Ríkharðsson, besti leikmaður Íslandsmótsins í vetur, skrifaði undir samning við félagið til þriggja ára.