Viðskipti innlent

Plútó Pizzu lokað eftir tæplega tveggja ára rekstur

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Pizzastaðurinn Plútó pizza lokaði í dag eftir tæplega tveggja ára rekstur.
Pizzastaðurinn Plútó pizza lokaði í dag eftir tæplega tveggja ára rekstur. Vísir/Vilhelm

Pítserían Plútó Pizza við Hagamel lokaði í dag eftir tæplega tveggja ára starfsemi. Fyrrum eigandi staðarins segist vera að snúa sér að öðru og því hafi hann selt reksturinn. Nýr eigandi hyggst breyta starfseminni.

Á Facebook-síðu Plútó Pizzu birtist í fyrradag, 16. júní, færsla um að staðurinn myndi loka eftir daginn í dag, 18. júní, og í kjölfarið hæfust framkvæmdir fyrir staðinn Indican sem myndi svo opna í júlí.

Stefán Melsted, fyrrum eigandi staðarins, sagði í viðtali við blaðamann að hann væri búinn að selja reksturinn vegna þess að hann væri kominn í annað. Hann væri með nýjan veitingastað sem héti Kastrup og bætti svo við „ég hef alltaf verið meira í veitingstöðum, mér finnst það skemmtilegra.“

Í samtalinu við Stefán kom fram að Valgeir Gunnlaugsson, eigandi Íslensku flatbökunnar og Indican, hefði keypt reksturinn.

Reksturinn taki nokkrum breytingum

Miðað við færslu sem Valgeir Gunnlaugsson birti inn á Facebook-hópinn „Vesturbærinn“ þann 29. apríl virðast kaupin hafi gengið í gegn fyrir þónokkru síðan, eða 3. maí. 

Í færslu Valgeirs greinir hann frá því að nýir rekstraraðilar séu að taka við staðnum og hann muni taka nokkrum breytingum. Einnig kemur fram í færslunni að verið sé að leita að pizzubökurum og fólki í afgreiðslu.

Nú, einum og hálfum mánuði eftir söluna, virðist hins vegar eiga að leggja pizzareksturinn niður og í staðinn muni staðurinn Indican, sem selur indverskan mat, opna.

Ekki náðist í Valgeir Gunnlaugsson við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×