Agnar hefur stýrt IFIF samfleytt frá stofnun sjóðsins árið 2009. Sjóðurinn var undir hatti fjármálafyrirtækisins GAMMA fram til ársins 2019, eða þangað til Kvika tók yfir reksturinn.
Árið 2021 var fyrsta árið frá stofnun sem IFIF skilaði neikvæðri afkomu. Gengið lækkaði um 6,3 prósent í fyrra og hefur lækkað enn frekar á þessu ári. Í árslok 2021 var stærð IFIF, sem hefur skilað rúmlega 10 prósenta árlegri ávöxtun frá stofnun, 14,3 milljarðar króna borið saman við rúmlega 18 milljarða í lok árs 2020.
Í fjárfestabréfi sem Agnar sendi sjóðsfélögum í byrjun þessa árs og Innherji greindi frá, kom fram að það hefðu verið „mikil vonbrigði að skila fjárfestum jafnslakri“ ávöxtun. Sjóðurinn hefði lagt upp með þá sýn í upphafi árs 2021 að atvinnuleysi, sem þá mældist um 11 prósent, myndi lækka hægt á sama tíma og verðbólga myndi ekki ná að rísa markvert í slíkum efnahagsbata.
„Það myndi leiða til óbreyttra vaxta Seðlabankans á árinu, sem þá voru 0,75 prósent, sem myndu taka að rísa hægt í fyrsta lagi árið 2022 – sem var í ágætu samræmi við þann tón lesa mátti frá Seðlabankanum á þeim tíma,“ ritaði Agnar.
Sú spá gekk ekki eftir. Viðspyrna efnahagslífsins reyndist mun kraftmeiri sem skilaði sér í háu atvinnustigi. Það, ásamt hækkandi verðbólgu og verðbólguvæntingum, setti af stað vaxtahækkunarferli Seðlabankans í fyrra sem hefur orsakað mikla hækkun nafnvaxta á skuldabréfamarkaði, einkum á styttri skuldabréfavöxtum.
„Þótt sjóðurinn hafi bæði haldið á stöðum í óverðtryggðum og verðtryggðum skuldabréfum, voru breytingar ekki gerðar í tíma þegar hin mikla og hraða hækkun vaxta og vaxtavæntinga fór af stað um miðjan október, bæði hér heima og erlendis, sem greiddi sjóðnum þungt högg,“ segir í fjárfestabréfinu.
Agnar mun samkvæmt heimildum hefja sagnfræðinám við Háskóla Íslands í haust en hann er nú þegar með B.Sc. gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði og M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.