Lífið

Blésu af göngu­fót­bolta­leik eftir að Guð­laugur Þór meiddist

Árni Sæberg skrifar
Guðlaugur Þór entist ekki lengi inni á vellinum í dag.
Guðlaugur Þór entist ekki lengi inni á vellinum í dag. Aðsend/UMFÍ

„Þetta var nú meiri dagurinn á Landsmóti UMFÍ 50+ í Borgarnesi í dag,“ svo hefst fréttatilkynning frá UMFÍ, en í Borgarnesi bar helst í dag að umhverfisráðherra meiddist í göngufótbolta.

Guðlaugur Þór Þórðarson tók þátt í göngufótbolta á íþróttamóti fimmtíu ára og eldri í dag. Ekki fór betur en svo að hann meiddist á fæti og varð frá að hverfa. Hann var ekki sá eini sem meiddist í leiknum og svo fór að blása þurfti leikinn af.

„Aðeins voru nokkrar mínútur liðnar af geysilega spennandi leik þegar Guðlaugur Þór Þórðarson, Borgnesingur og umhverfisráðherra,- orku- og loftslagsráðherra, tognaði á fæti að talið er í kjölfar hælspyrnu. Hann þurfti að hverfa af velli til að kæla meiðslin og hætti leik. Skömmu eftir að blásið var til seinni hálfleiks féll andstæðingur hans niður. Talið er að hann hafi slitið hásin. Hann var borinn af velli. Ekkert er vitað um líðan þeirra,“ þetta segir í fréttatilkynningu frá UMFÍ.

Athygli vekur að tveir hafi meiðst í leiknum en eins og nafn göngufótbolta gefur til kynna er stranglega bannað að hlaupa þegar hann er iðkaður.

Að örðu leyti fór mótið vel fram og án stórslysa. Keppt var í fjölda greina og voru sumar þeirra opnar fyrir yngri keppendur.

Að stígvélakasti, sem er ávallt síðasta grein Landsmóts UMFÍ 50+, loknu sleit Gunnar Þór Gestsson, varaformaður UMFÍ, mótinu og sagðist hlakka til að sjá mótsgesti á næsta móti sem verður á Stykkishólmi að ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.