Nefndin fór yfir stöðuna á fasteignamarkaði þar sem kom fram að ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar fasteigna væri enn mikið.
„Verðhækkanir höfðu verið langt umfram ákvarðandi þætti frá vormánuðum 2021 og taldi nefndin að líkur á stöðnun eða leiðréttingu raunverðs hefði aukist,“ segir í fundargerðinni. Fram kom að fasteignaverð hefði hækkað um 2,1 prósent að nafnvirði milli mánaða að meðaltali undanfarna sex mánuði og í apríl hefði fasteignaverð mælst 22,3 prósentum hærra en á sama tíma 2021.
Síðustu vikur fyrir fund nefndarinnar komu þó fram vísbendingar um að framboð væri að aukast og hafði fjöldi auglýstra eigna til sölu aukist lítillega. Meðalsölutíminn var hins vegar enn mjög stuttur og mældist undir 30 dögum.
Nefndarmenn höfðu áhyggjur af litlu framboði íbúðarhúsnæðis í ljósi þess að framboð nýbygginga var minna en áður var talið. Talning Samtaka iðnaðarins bendir þó til að framboð nýrra fullbúinna íbúða muni aukast aftur árið 2023.
Nefndin ræddi auk þess um áhrif af nýlegum reglum um lánþegaskilyrði. Fjármálastöðugleikanefnd herti lánþegaskilyrði þrisvar sinnum á tólf mánaða tímabili. Í júní í fyrra lækkaði nefndin hámark veðsetningarhlutfalls annarra en kaupenda fyrstu fasteignar og í september innleiddi nefndin ný nýtt hámark greiðslubyrðar fasteignalána, bæði fyrir fyrstu kaupendur og aðra. Að lokum lækkaði nefndin hámark veðsetningarhlutfalls fyrir kaupendur fyrstu fasteignar og bætti við viðmiði um lágmarksvexti við útreikning á greiðslubyrðarhlutfallinu 15. júní.
„Útlánagæði nýrra fasteignalána til neytenda höfðu batnað nokkuð frá því að reglur um hámark veðsetningar voru hertar fyrir tæpu ári síðan,“ segir í fundargerðinni.
Lánum til annarra en fyrstu kaupenda með veðsetningarhlutfall yfir 80 prósent hafði fækkað verulega. Lántakendum með greiðslubyrðarhlutfall hærra en 35 prósent hafði einnig fækkað milli fjórðunga á fyrsta fjórðungi þessa árs en reglur um hámark greiðslubyrðarhlutfalls tóku gildi í desember 2021.
Meðaltal greiðslubyrðarhlutfalls hafði aftur á móti hækkað nokkuð hjá kaupendum fyrstu íbúðar og var nærri 30 prósent að meðaltali á fyrsta fjórðungi ársins. Nefndin ræddi að hratt hækkandi íbúðaverð kæmi illa við fyrstu kaupendur sem hefðu þurft að taka á sig hærri greiðslubyrði til að komast inn á markaðinn. Hætta væri á að aukin skuldsetning þeirra gæti veikt viðnámsþrótt þeirra ef bakslag yrði á fasteignamarkaði.