Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.
Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Tíska er mitt uppáhalds listræna tjáningarform og eitt að því sem mér finnst skemmtilegt við hana er að hún snertir næstum alla, jafnvel þá sem halda að þeim sé alveg sama um tísku.
Flestir hafa skoðun á henni á einn eða annan hátt. Svo elska ég að fylgjast með kláru fólki sem starfar í tískuheiminum vinna í allskonar ólíkum verkefnum.
Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Í augnablikinu er það Issey Miyake kjóll sem maðurinn minn gaf mér í jólagjöf og Celine taska sem ég keypti mér fyrir stuttu. Hlutir sem ég veit ég mun eiga lengi, kannski alltaf.
Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Oftast ekki.
Ég veit næstum alltaf hvað ég er í stuði fyrir þegar ég vakna og svo er gott trix að eiga ekki of mikið af fötum því þá er minna að velja úr.
Eftir að hafa unnið í fatabúð í tíu ár skal ég vera fyrst til að viðurkenna að einu sinni átti ég allt of mikið af fötum, en seinustu þrjú til fjögur ár hef ég verið að fækka í fataskápnum og passa mig að eiga frekar færri og vandaðri flíkur.
Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Lítið af svörtu, mikið af litum.
Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Heldur betur. Mini-skinka í grunnskóla, grunge tímabil í Versló. Þaðan í vintage, skate og allskonar inspired tímabil. Þannig er það líka lang skemmtilegast.
Það er auðvelt að líta til baka og gera grín af sjálfum sér en allt er þetta einhverskonar birtingarmynd af því hver maður var eða vildi vera á þeim tíma.
Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Mikið á Instagram en eftir að ég flutti til Japan þá líka út um allt hér. Japönsk tíska er svo áhugaverð og ólík eftir því hvar í landinu þú ert. Þar sem ég bý t.d. í Kyoto klæða konurnar sig mjög látlaust.
Þær eru oftast í vönduðum flíkum en vilja ekki að flíkurnar veki neina óþarfa athygli. Svo þegar maður fer til Tokyo vilja allir helst láta stara á sig. Ég myndi segja af stíllinn minn sé svolítið akkúrat þarna í miðjunni.
Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Engar diskó buxur ((e. disco pants) (2012- ∞)).
Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Brúðkaupskjóllinn minn sem ég keypti í Aftur þegar ég giftist Simma við pínuponsu litla covid friendly athöfn í ágúst 2020.
Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Kaupa færri og vandaðari flíkur ef þú hefur tök á. Ég get ekki lýst því hvað það skiptir miklu máli. Manni þykir sjálfkrafa miklu vænna um flíkna og svo þarf auðvitað að ræða það í leiðinni hvað fataiðnaðurinn getur verið hræðilega óumhverfisvænn.
Fyrirtæki eins og SHEIN og fleiri hafa búið til viðskiptamódel sem hvetur fólk til að kaupa miklu fleiri föt en það raunverulega þarf ásamt því að fötin eru bæði í lélegum gæðum og búin til við ómannúðlegar aðstæður.
Ég átta mig á að það eru forréttindi að geta keypt sér vandaðri og þar að leiðandi oftast dýrari vöru en vandamálið liggur ekki hjá tekjulægri einstaklingum sem kaupa sér ódýrari nauðsynjavöru. Vandamálið í dag er að við kaupum flíkur í alltof miklu magni, á þeim forsendum að þær kosti lítið.
Í staðinn fyrir að kaupa vandaðri vöru og nýta hana betur, kjósum við að kaupa fimm ódýrari flíkur sem eru kannski bara notaðar einu sinni. Það þarf að breytast.