Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands hafa gert alvarlegar athugasemdir við áform forsætisráðuneytisins um setningu laga sem fela í sér að ráðherra rýni beina erlenda fjárfestingu í íslenskum fyrirtækjum sem starfa í „viðkvæmum geirum“.
Skilgreiningin á viðkvæmum geirum, eins og ráðuneytið hefur útfært hana, er sérlega víðtæk. Hún nær ekki einungis yfir náttúruauðlindir heldur teygir sig yfir í heilbrigðisþjónustu og þróun á þjarkatækni og umhverfislausnum svo nokkur dæmi séu tekin. Erlendum fjárfestum er þannig skylt að tilkynna ráðuneytinu um kaup á meira en 10 prósenta hlut í þeim fjölda fyrirtækja sem falla undir lögin og auk þess getur ráðherra að eigin frumkvæði ákveðið að rýna beina erlenda fjárfestingu sem lögin ná ekki til.
Í umsögnum hagsmunasamtakanna er réttilega bent á að lögin verði að óbreyttu hindrun fyrir íslensk sprotafyrirtæki sem þurfa að sækja fjármagn til sérhæfðra erlendra fjárfestingasjóða. Samtök atvinnulífsins benda sérstaklega á að með áformunum hyggist stjórnvöld ganga lengra en það sem þekkist erlendis. Atvinnugreinar sem heyra undir hið erlenda regluverk eru færri og afmörkunin bæði þrengri og skýrari.
Tillögur forsætisráðuneytisins voru birtar í samráðsgátt stjórnvalda um svipað leyti og Alþingi samþykkti frumvarp til breytingar á lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna sem mátti rekja til sama ráðuneytis.
Sömu annmarkar voru á þessum frumvarpsdrögum og þeim fyrri. Hugtakið „annar erlendur opinber aðili“ skilgreint með svo víðtækum hætti að stærstu fjárfestingasjóðir heims, norski olíusjóðurinn þar á meðal, gætu ekki fjárfest í íslensku atvinnulífi. Ein stærsta lögmannastofa landsins, BBA BBA//Fjeldco, sagði að frumvarpið myndi að óbreyttu leggja bann við fjárfestingu slíkra sjóða á Íslandi, hvort sem um væri að ræða beina fjárfestingu í fasteign eða í íslenskum félögum sem njóta réttinda til fasteigna. Á lokametrunum var frumvarpinu breytt með hliðsjón af athugasemdum lögmannastofunnar.
Ofan á allt þetta bætist Mílumálið. Eftir níu mánuði er viðskiptin enn ófrágengin og ljóst að þau munu ekki klárast fyrr en í fyrsta lagi seint í næsta mánuði nú þegar franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian hefur óskað eftir sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið til að freista þess að ljúka samrunanum með ásættanlegum skilyrðum að mati eftirlitsins. Eins og fram kom í nýlegri umfjöllun Innherja stjórnendur hafa stjórnendur Ardian, sem er einn stærsti innviðafjárfestir Evrópu og öllu vanur í samskiptum við eftirlitsstofnanir, aldrei hafa upplifað annað eins líkt og í samskiptum sínum við íslenska eftirlitið.
Ávinningurinn af því að laða meira fjármagn til landsins er ótvíræður og íslenska hagkerfinu hefur skort erlenda fjárfestingu frekar en hitt. Hlutfall beinnar erlendrar fjárfestingar af vergri landsframleiðslu, sem var ríflega 30 prósent í fyrra, mælist svo lágt að Ísland er í 61. sæti af 63 ríkjum í úttekt IMD fyrir árið 2022.
Ein líkleg skýring er að einungis tvö OECD-ríki, Nýja Sjáland og Mexíkó, búa við meiri hömlur á erlenda fjárfestingu en Ísland. Ekki eru miklar líkur á að Íslandi færist upp listann á meðan stjórnsýslan vinnur gagngert að því að flækja regluverkið, og gefa ráðherrum víðtækar og óljósar heimildir til inngripa. Og þessar áherslur ríma illa við hið tíðrædda markmið ríkisstjórnarinnar um að hugverkaiðnaðurinn festi sig í sessi sem fjórða stoð efnahagslífsins. Til þess þarf greiðan aðgang að erlendu fjármagni.
Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.