
Ferðalagið tók samtals sjö daga og lauk nú fyrir helgi. Hann var enn að jafna sig eftir átökin þegar blaðamaður náði tali af honum. Chris segist hafa viljað finna nýjar leiðir til að komast í tæri við stórbrotna náttúru Suðurlandsins og þaðan spratt hugmyndin að ferðalaginu.
„Þetta verður stundum einhæft, þrátt fyrir fegurðina. Draumurinn er alltaf að upplifa magnaðan stað á nýjan hátt. Ferðamannastraumurinn er líka svolítið kæfandi. Ég hef svo oft verið að keyra um suðurströndina og horft út á sjóndeildarhringinn og hugsað með mér: „hvað ætli sé þarna úti?““
Þegar Chris fór að kanna Suðurströndina nánar komst hann að því að um mjög sögufræga strandlengju er að ræða. Sögur af landnámi og hetjusögum af fólki sem komst rétt lífs af í baráttu við nátturuhamfarir eru alltumlykjandi og vildi hann varpa ljósi á þessa sögu.

Jökulárnar stærsta áskorunin
„Hjólið hefur verið frábær fararskjóti til að kynnast landinu en á strandlengjunni eru um 40 ár sem þarf að komast yfir. Þannig ég áttaði mig á því að eina leiðin til að komast alla leið sé að taka uppblásinn fleka með í för.“
Chris fór því að æfa sig á uppblásnum kajak í Colorado til að verða loks í stakk búinn til að takast á við allar mögulegar áskoranir á leiðinni.

„Þetta kom mér á bragðið, það var mjög spennandi að takast á við hættulegar ár en á skömmum tíma fór hugmyndin að ferðalaginu frá því að virðast ómöguleg yfir í að vera vel gerleg,“ segir Chris en bætir við að þetta ferðalag, ólíkt mörgum öðrum sem hann hefur farið í hér á landi, myndi krefjast mun meiri undirbúnings. Hann flaug því yfir árnar til að átta sig betur á því hvernig landið lægi.
„Svo gistum við í neyðarskýlum, sem sum hver voru uppfull af sandi, og tjölduðum. Þetta var bara eins og þú myndir ímynda þér, bara hrikalega erfitt og mjög ógnvekjandi.“

Himin og haf virtust saman renna, eins og skáldið sagði. Sumir hlutar leiðarinnar segir Chris hafa verið auðvelda og fljótfarna á meðan aðrir vegkaflar hafi verið mjög strembnir þar sem Chris og félagar þurftu að ýta hjólunum tímunum saman.
„Sandurinn sjálfur tekur svo á líkamann og maður finnur fyrir óþægindum á ólíklegustu stöðum líkamans.“
Ógnvekjandi á köflum
Veðrið á leiðinni var mjög gott fyrstu og síðustu dagana en þess á milli var vonskuveður og mikil bleyta.

„Það er frekar óhugnalegt af því hlutinn frá Ingólfshöfða til Víkur er mjög hættulegur, maður er mjög langt frá veginum, allar árnar eru jökulsár og mjög stórar, mikið um fuglalíf og það bara hellirigndi.“
Chris er meðvitaður um hætturnar sem leynast á ýmsum stöðum suðurstrandarinnar.
„Við sigldum framhjá Reynisfjöru og Vík og stundum var eina leiðin áfram rétt hjá sjónum þar sem það var mikið flóð. Maður þurfti bara að einbeita sér, þessi kafli var ekki beint rólegur þannig að maður gat notið hans.“

Chris hefur komið til Íslands um sjötíu sinnum og telst sannkallaður Íslandsvinur. Hann reynir eins og hann getur að búa á landinu en hér á hann einnig íbúð. Ferðina um suðurströndina segir hann einhverja þá allra mögnuðustu og sannarlega erfiðustu, þrátt fyrir að hafa áður farið í leiðangra yfir Mýrdalsjökul og hjólað yfir landið um hávetur. Undirbúningurinn var einnig sá mesti fyrir þessa ferð.
„Ég veit ekki hvað ég á að líkja þessu við, þetta er smá svona eins og að klífa fjall án þess að vita hvar toppurinn er.“
Ljósmyndari Chris, Ryan Hill, var einnig með í för og tók magnaðar myndir sem má sjá hér að neðan. Á Instagram reikningi Chris Burkard hefur hann að auki sýnt frá ferðalaginu í nokkrum myndböndum sem óhætt er að mæla með.






