Hagnað greiðslumiðlunarfyrirtækisins á fyrri árshelmingi má að mestu leyti rekja til annars ársfjórðungs en í uppgjöri Arion banka fyrir fyrsta fjórðung kom fram að Valitor hefði hagnast um 59 milljónur. Þá jukust tekjur Valitor um 28 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins, úr 2,5 milljörðum króna í 3,2 milljarða, miðað við sama tímabil í fyrra.
Arion banki gekk frá sölu á Valitor til fjártæknifyrirtækisins Rapyd í byrjun júlí og litast afkoma bankans mjög af 5,6 milljarða bókfærðum hagnaði vegna sölunnar. Í afkomutilkynningu Arion er haft eftir Benedikt Gíslasyni bankastjóra að salan á Valitor einfaldi samstæðu félagsins og „skerpi fókus.“
Í rannsókn Samkeppniseftirlitsins komu fram upplýsingar um að Festi hefði samið við Valitor um færsluhirðingu og myndi framkvæmd færsluhirðingar því færast frá SaltPay til Valitor í árslok 2021. Veltan sem fylgir slíkum samningi við Festi vegur afar þungt í færsluhirðingu hérlendis.
Nánari athugun leiddi í ljós að fleiri veigamiklir viðskiptavinir hefðu auk Festar fært viðskipti sín frá SaltPay til Valitors og Rapyd á seinni hluta síðasta árs en enginn veigamikill viðskiptavinur hafði fært sig yfir til SaltPay á sama tímabili.
Ef kaup Rapyd á Valitor hefðu gengið í gegn óbreytt og án íhlutunar hefði markaðshlutdeild sameinaðs fyrirtækis orðið á bilinu 70-75 prósent fyrir færsluhirðingu hjá íslenskum söluaðilum. Samkvæmt samkomulagi við Samkeppniseftirlitið var safn viðskiptasamninga, sem saman mynda um 25 prósenta hlutdeild á markaðinum fyrir færsluhirðingu hér á landi, selt til Kviku banka sem ætlar að hasla sér völl á markaðinum.
Auk Kviku banka hefur fjarskipta- og fjölmiðlunar fyrirtækið Sýn greint frá áformum um að bjóða upp á greiðsluþjónustu og Landsbankinn vinnur einnig að því að koma inn á markaðinn.