Innherji

Ný útlán til fyrirtækja hafa aldrei verið meiri frá upphafi mælinga

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Miklu munar um útlán til iðnaðar er tengist vinnslu sjávarafurða. Þá námu 14 milljarða króna og hafa aldrei verið meiri í einum mánuði.
Miklu munar um útlán til iðnaðar er tengist vinnslu sjávarafurða. Þá námu 14 milljarða króna og hafa aldrei verið meiri í einum mánuði. Vísir/Vilhelm

Útlán banka til atvinnufyrirtækja námu ríflega 38 milljörðum króna og hafa aldrei verið meiri í einum mánuði frá því að Seðlabanki Íslands byrjaði að halda utan um tölurnar í byrjun árs 2013.

Umtalsverður vöxtur hefur orðið á útlánum til fyrirtækja frá áramótum. Á seinni helmingi ársins 2021 námu hrein ný útlán til fyrirtækja einungis 4 milljörðum króna samanborið við 154 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs.

Miklu munar um útlán til iðnaðar er tengist vinnslu sjávarafurða. Þau námu 14 milljörðum króna og hafa aldrei verið meiri í einum mánuði. Lán til þjónustufyrirtækja námu um 16 milljörðum króna sem er lækkun frá því í maí en vel yfir því sem var mánuðina þar á undan. Þá námu útlán til byggingargeirans 3 milljörðum króna í júní samanborið við 7 milljarða í maí.

Á sama tíma og bankarnir hafa sótt í sig veðrið hefur hægt á útlánum fagfjárfestasjóða sem voru atkvæðamiklir á seinni helmingi síðasta árs. Aukning í fyrirtækjalánum hjá fagfjárfestasjóðum nam 40 milljörðum frá júlí til desember í fyrra en rúmlega 10 milljörðum frá síðustu áramótum.

Samkvæmt tölum Seðlabankans námu ný útlán til heimila 22,8 milljörðum króna í júní og jukust lítillega milli mánaða. Það er töluvert undir því sem var á seinni árshelmingi 2020 og fyrri árshelmingi 2021 þegar hrein ný útlán til heimila voru jafnan yfir 30 milljörðum í hverjum mánuði.

Í Peningamálum Seðlabankans frá því í maí kom fram að könnun bankans á fjárfestingaráformum fyrirtækja sem framkvæmd var í febrúar og mars á þessu ári benti til þess að þau áformi að auka við fjárfestingu sína í ár um liðlega 30 prósent að nafnvirði frá fyrra ári. Það er mun meiri aukning fjárfestingarútgjalda en kom fram í samsvarandi könnun Seðlabankans frá því í september.

Þá virðist mönnunarvandi fyrirtækja og geta þeirra til að auka afköst sín hafa haldið áfram að versna. Samkvæmt sumarkönnun Gallup var hlutfall stjórnenda sem töldu fyrirtæki sitt skorta starfsfólk komið yfir helming og var það aðeins 0,1 prósentu lægra en hæsta gildi könnunarinnar árið 2007.

Seðlabanki Íslands hefur hækkað stýrivexti úr 2 prósentum upp í 4,75 prósent það sem af er ári en næsta vaxtaákvörðun bankans er í lok ágúst. Í fundargerð peningastefnunefndar frá síðustu vaxtaákvörðun í júní kom fram að nefndin teldi líklegt að herða þyrfti taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólga, sem mælist nú 9,9 prósent, hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma.

Þegar bera fór á auknum útlánum til fyrirtækja í mars sagði sérfræðingur í markaðsviðskiptum Arion banka að útlánaskrið væri merki um að efnahagsumsvif væru meiri en áður var búist við. Þar af leiðandi væru auknar líkur á því að Seðlabankinn myndi bregðast harkalega við til að ná niður verðbólgu. 


Tengdar fréttir

Mikill vöxtur í fyrirtækjalánum utan hins hefðbundna bankakerfis

Stöðugur vöxtur er í lánum fagfjárfestasjóða til fyrirtækja á sama tíma og bankakerfið hefur einnig tekið við sér í að stórauka á ný lán til atvinnulífsins. Frá því í ársbyrjun 2021 hafa heildarútlán slíkra sjóða, sem eru einkum fjármagnaðir af lífeyrissjóðum, til atvinnufyrirtækja aukist um 60 prósent og námu þau 155 milljörðum í lok apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×