Innherji

Vænta hærri verðbólgu og hún verði 5,8 prósent eftir eitt ár

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en næsta vaxtaákvörðun verður birt eftir viku. Fastlega má gera ráð fyrir frekar hækkun vaxta, sem eru núna 4,75 prósent, en markaðsaðilar spá því að vextirnir verði 5,5 prósent á þriðja fjórðungi.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en næsta vaxtaákvörðun verður birt eftir viku. Fastlega má gera ráð fyrir frekar hækkun vaxta, sem eru núna 4,75 prósent, en markaðsaðilar spá því að vextirnir verði 5,5 prósent á þriðja fjórðungi. Vísir/Vilhelm

Markaðsaðilar búast við því að verðbólgan, sem mælist núna 9,9 prósent, muni ná hámarki á þriðja ársfjórðungi þessa árs og hún verði þá að meðaltali tíu prósent. Þá telja þeir að verðbólgan muni taka að hjaðna í kjölfarið og verði 5,8 prósent að ári liðnu og fjögur prósent eftir tvö ár.

Þetta er niðurstaða könnunar Seðlabanka Íslands, sem var framkvæmd í byrjun síðustu viku og fengust svör frá 24 markaðsaðilum, en samkvæmt henni búast þeir núna við meiri verðbólgu bæði til skamms og lengri tíma en áður. Í könnun bankans frá því í apríl töldu markaðsaðilar þannig að verðbólgan, sem hefur aukist stöðugt á síðustu mánuðum, yrði fimm prósent að ári liðnu.

Þá hafa langtímaverðbólguvæntingar jafnframt hækkað frá síðustu könnun og er búist við að verðbólga verði að meðaltali 3,8 prósent á næstu fimm árum. Verðbólguvæntingar til tíu ára hafa einnig hækkað og mælast um 3,5 prósent.

Þá gefur könnunin til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi krónunnar hækki lítillega á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 138 krónur eftir eitt ár.

Næsti vaxataákvörðunarfundur peningastefnunefndar Seðlabankans fer fram miðvikudaginn í næstu viku en fastlega er gert ráð fyrir að vextir bankans, sem eru núna 4,75 prósent og hafa hækkað um 2,75 prósentur frá áramótum, muni þá hækka enn frekar.

Í könnun Seðlabankans kemur fram að miðað við miðgildi svara þá búist markaðsaðilar við því að meginvextir bankans hækki í 5,5 prósent á yfirstandandi fjórðungi og að þeir hækki enn frekar í framhaldinu og verði 6 prósent á fyrsta fjórðungi næsta árs.

Vextirnir muni hins vegar taka að lækka að einu ári liðnu og verða þá 5,5 prósent og eftir tvö ár verði þeir komnir niður í 4,5 prósent. Þetta eru hærri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í könnun bankans frá því í apríl.

Eftir brattar vaxtahækkanir Seðlabankans að undanförnu – þeir hafa hækkað um 100 punkta í einu vetfangi á síðustu tveimur fundum peningastefnunefndar – telja færri markaðsaðilar en áður að taumhald peningastefnunnar sé of laust. Hlutfall þeirra er nú 67 prósent en var 79 prósent í síðustu könnun í apríl. Aðeins fjögur prósent svaraenda telur að taumhaldið sé of mikið.


Tengdar fréttir

Aldrei minni vanskil í lánasafni Landsbankans

Vanskil viðskiptavina Landsbankans hafa farið lækkandi frá því í lok árs 2019 og hafa aldrei verið lægri en þau voru um mitt þetta ár. Þetta kemur fram uppgjörskynningu bankans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×