Lífið

„Reynum að dæla inn eins mikið af pabba­bröndurum og við getum“

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Samstarfsverkefni borðspilahlaðvarpsins Pant vera blár og verslunarinnar Spilavinir.
Samstarfsverkefni borðspilahlaðvarpsins Pant vera blár og verslunarinnar Spilavinir. Vísir/Egill Aðalsteinsson

Boðið var upp á spilakvöld í kvöld í spilaversluninni „Spilavinir“ en um er að ræða samstarfsverkefni á milli verslunarinnar og hlaðvarpsins „Pant vera blár.“ Þáttastjórnendur segja áhuga á borðspilum og framleiðslu þeirra hafa stóraukist.

Þáttastjórnendur hlaðvarpsins Þorvaldur Guðjónsson og Kristleifur Guðjónsson segja aukningu hafa orðið í áhuga á borðspilum um þessar mundir, þá sérstaklega á meðan Covid-19 faraldurinn stóð sem hæst.

Þeir nefna einnig að þeir hafi orðið varir við aukningu í útgáfu borðspila hér á landi en dæmi um það er borðspilið „Gott gisk“ sem kemur út nú í október. Höfundar spilsins lentu í því óláni að frumgerð þess fauk út í rjúkandi hraun í Meradölum þegar þeir voru að reyna að mynda kynningarefni fyrir útgáfu spilsins.

Um hlaðvarpið sjálft segir Þorvaldur, „Við erum bara svolítið að tala um borðspil, hvaða spilum við höfum gaman af og höfum verið að spila undanfarið. Svo reynum við að hafa alltaf eitthvað umræðuefni þáttarins sem við erum að ræða hvort sem að það eru einhverjir topplistar eða reyna að selja fólki eitthvað til þess að kaupa í jólagjafir eða hitt og þetta. Við reynum að dæla inn eins mikið af pabbabröndurum og við getum og hafa þetta svolítið skemmtilegt.“

Viðtalið við Þorvald og Kristleif má sjá í heild sinni hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×