Erlent

Elísa­bet II Bret­lands­drottning er látin

Elísabet önnur, drottning Bretlands er látin. Hún var 96 ára gömul. Heilsu drottningarinnar hafði hrakað hratt á undanförnum mánuðum en hún lést í kastala sínum í Skotlandi.

Samúel Karl Ólason og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Elísabet önnur, Bretlandsdrottning, er látin. Hún er sá þjóðaðhöfðingi Bretlands sem sat lengst í hásæti.

Elísabet önnur, drottning Bretlands er látin. Hún var 96 ára gömul. Heilsu drottningarinnar hafði hrakað hratt á undanförnum mánuðum en hún lést í kastala sínum í Skotlandi.

Elísabet Bretlandsdrottning hefur setið lengur í hásætinu en nokkur annar konungur eða drottning Bretlands. 

Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá konungsfjölskyldunni lést drottninginn friðsamlega síðdegis í dag. Þar segir einnig að Karl Bretakonungur, sonur Elísabetar, og Kamilla eiginkona hans, muni halda kyrru fyrir í Balmoral í Skotlandi, þar sem drottningin lést, í nótt. Þau muni síðan halda til Lundúna á morgun.  

Heilsu Elísabetar hafði hrakað mikið á síðasta árinu eða svo, og hafði dregið sig að miklu leyti í hlé. Frá því síðasta haust hafði hún í auknum mæli fengið Karl til að mæta á opinbera viðburði fyrir hennar hönd. Þá greindist hún með Covid-19 í febrúar.

Hún tók þó þátt í fögnuði vegna 70 ára krýningarafmæli hennar á svölum Buckingham-hallar fyrr á þessu ári, auk þess sem hún tók við afsögn Borisar Johnson og skipaði Liz Truss nýjan forsætisráðherra Bretlands fyrr í þessari viku.

Um hádegisbil í dag var tilkynnt að drottningin væri undir sérstöku eftirliti lækna, eftir að heilsu hennar hefði hrakað mikið í morgun. Allir í nánustu fjölskyldu hennar streymdu þá til Balmoral til að vera hjá Elísabetu. 

Fylgst er með nýjustu fréttum og atburðarás tengdum andláti drottningar í vaktinni á Vísi. Hér að neðan er stiklað á stóru um líf og störf Elísabetar.

Fæddist árið 1926

Elísabet fæddist í Lundúnum þann 21. apríl árið 1926 og var skírð Elísabet Alexandra María, eftir móður sinni Alexöndru og ömmu sinni Maríu. Fáir áttu von á því að Elísabet yrði nokkurn tímann drottning en það breyttist árið 1936. Þá gaf Játvarður áttundi frá sér krúnuna og Georg sjötti, faðir Elísabetar, varð konungur.

Á myndinni hér að neðan má sjá Elísabetu með Alexöndru móður sinni og Margréti systur sinni árið 1939.

Hér að neðan má heyra fjórtán ára gamla Elísabetu senda börnum í Bretlandi skilaboð í útvarpi árið 1940, þegar árásir Þjóðverja á Bretland stóðu hvað hæst.

Á vef konungsfjölskyldunnar segir að Elísabet hafi ekki sótt skóla heldur fengið menntun heima fyrir. Eftir að faðir hennar varð konungur, og hún næst í röðinni, fór hún að læra lögfræði og sögu í undirbúningi fyrir hlutverk hennar. Hún fékk einnig menntun í trúabragðafræði og lærði frönsku, listsögu og stundaði tónlistarnám. Þá stundaði hún reiðmennsku og sund í æsku.

Hitti framtíðar-eiginmann sinn átta ára gömul

Þegar drottningin var einungis átta ára hitti hún í fyrsta sinn hann Filippus prins, sem hét þá Filippus Schleswig-Holstein-Sonderburg-Glücksburg. Þau hittust í brúðkaupi árið 1934 en þrettán árum seinna, árið 1947, var trúlofun þeirra opinberuð og sama ár giftust þau.

Athöfnin var ekki íburðarmikil enda voru Bretar að jafna sig eftir seinni heimsstyrjöldina.

Filippus, sem bar titilinn hertoginn af Edinborg, féll frá í fyrra, skömmu fyrir hundraðasta afmælisdag sinn.

Sjá einnig: Filippus prins er látinn

Karl Bretaprins, fyrsta barn þeirra hjóna og núverandi konungur, fæddist árið 1948. Anna prinsessa fæddist svo árið 1950. Andrés prins fæddist 1960 og Játvaður prins fæddist 1964. Þeir tveir síðastnefndu voru fyrstu börnin sem þjóðarleiðtogi Bretlands eignaðist á meðan viðkomandi var við völd frá tímum Viktoríu drottningar á nítjándu öld.

Hér að neðan er mynd sem tekin var af þeim Karli, Elísabetu og Önnu árið 1954.

Elísabet tók við völdum í febrúar 1952, þegar Georg sjötti, faðir hennar, lést eftir langvarandi veikindi. Hún og Filippus voru þá stödd í Keníu í opinberri ferð sem Elísabet fór í stað föður síns, sem þurfti að vera heima vegna áðurnefndra veikinda.

Stödd á afskekktum stað í Keníu varð Elísabet prinsessa Elísabet önnur, Bretlandsdrottning.

Hún og Filippus flýttu sér aftur til Bretlands þar sem Winston Churchill, þáverandi forsætisráðherra, og aðrir embættismenn tóku á móti þeim.

Hún var formlega krýnd í Westminster Abbey í Lundúnum, þann 2. júní 1953.

Elísabet tók nýverið á móti sínum fimmtánda forsætisráðherra í Balmoral-kastala í Skotlandi, þar sem hún hefur verið undir eftirliti lækna að undanförnu. Hefð er fyrir því að nýr forsætisráðherra fái áheyrn drottningar í Buckingham höll áður en hann tekur við embætti. Það hafði Elísabet alltaf gert þar til Liz Truss varð forsætisráðherra, þann 6. september síðastliðinn.

Sjá einnig: Tek­ur ekki á móti nýj­um for­sæt­is­ráð­herr­a í Buck­ing­ham-höll í fyrst­a sinn í sjö­tí­u ár

Mjög vinsæl drottning

Elísabet hefur að mestu verið mjög vinsæl hjá bresku þjóðinni. Vinsældir hennar dvínuðu þó mjög um tíma árið 1997, í kjölfar andláts Díönu prinsessu. Prinsessan, sem var fyrrverandi eiginkona Karls Bretaprins, var einstaklega vinsæl meðal bresku þjóðarinnar og drottningin var sökuð um hæg og slæm viðbrögð við dauða hennar.

Elísabet var þá stödd í Balmoral í Skotlandi með fjölskyldu sinni og þar á meðal sonum Díönu og Karls Bretaprins, þeim Vilhjálmi og Harry.

Konungsfjölskyldan og drottningin voru harðlega gagnrýnd fyrir að sýna ekki nógu mikla sorg opinberlega og fyrir það að flagga ekki í hálfa stöng við Buckingham-höll í Lundúnum. Aðeins einum fána er flaggað við höllina og það er fána drottningarinnar, þegar hún heldur til í höllinni.

Elísabet, Filippus, Díana og Karl árið 1982.Getty/Anwar Hussein

Í kjölfar mikillar reiði yfir fánaleysinu var þó ákveðið að flagga í hálfa stöng við Buckingham-höll í fyrsta sinn. Það var gert eftir að Tony Blair, þáverandi forsætisráðherra, ræddi við drottninguna og lagði til að fánanum yrði flaggað.

Blair hvatti Elísabetu einnig til að ferðast til Lundúna og votta Díönu virðingu sína opinberlega, sem hún gerði. Elísabet ávarpaði þjóðina frá Buckingham-höll en það ávarp er af mörgum talið hafa leitt til aukinna vinsælda drottningarinnar meðal þjóðarinnar.

Mikill húmoristi

Elísabet er sögð hafa verið mikill húmoristi. Til marks um það má rifja upp skondna sögu fyrrverandi lífvarðar hennar frá því þegar þau tvö voru í gönguferð við Balmoral-kastala í Skotlandi og römbuðu á ferðamenn frá Bandaríkjunum. Ferðamennirnir höfðu ekki hugmynd um hver hún var.

Heilsunni hefur hrakað hratt

Drottningin hefur verið við góða heilsu en henni virðist hafa hrakað hratt á undanförnum mánuðum.

Sky News fór nýverið yfir sjúkrasögu hennar en árið 2016 notaði hún lyftu í þinghúsi Bretlands við setningu þings og var það í fyrsta sinn sem hún gekk ekki upp 26 þrep þar. Árið 2018 fór hún í skurðaðgerð á auga.

Þann 12. október í fyrra sást hún í fyrsta sinn notast við göngustaf, að undanskildum staf sem hún notaði í tvær vikur árið 2013 eftir aðgerð á hné. Í október í fyrra skipuðu læknar henni að hvíla sig í mánuð og hætti hún við að mæta á marga viðburði á þeim tíma.

Þann 20. október varði hún nótt á sjúkrahúsi og var það í fyrsta sinn í átta ár, eða frá því hún gekkst áðurnefnda hnéaðgerð.

Á þessu ári hefur drottningin hætt við að mæta á fjölmarga viðburði, sem margir tengdust hátíðarhöldum vegna sjötíu ára valdatíðar hennar.

Hún greindist með Covid þann 21. febrúar og kvartaði í kjölfar þess yfir því að hún hafi sífellt verið þreytt og orkulítil eftir veikindin, þó hún hefði eingöngu fengið væg einkenni við Covid.

Í maí missti hún svo af þingsetningu í fyrsta sinn í 59 ár.

Kom einu sinni til Íslands

Elísabet kom í opinbera heimsókn til Íslands árið 1990 ásamt eiginmanni sínum Filippusi. Vigdís Finnbogadóttir var þá forseti, fyrst kvenna í heiminum, og fóru þó meðal annars og lögðu blóm að minnisvarða hermanna sem féllu hér á landi í seinni heimsstyrjöldinni og skoðuðu Krýsuvík.

Áður hafði Elísabet boðið Vigdísi í heimsókn til Bretlands.

Filippus, Elísabet og Vigdís árið 1990. Konungshjónin vörðu tveimur dögum hér á landi.Getty/Tim Graham

Konungshjónin og Vigdís á Þingvöllum.Getty/Tim Graham

Hópurinn í Almannagjá á Þingvöllum.Getty/Tim Graham

Elísabet virðir Íslendinga fyrir sér í júní 1990.Getty/Tim Graham

Vígdís með konungshjónunum í Krýsuvík.Getty/John Shelley

Elísabet í Reykjavík.Getty/John Shelley






×