Aðeins rúmir níu mánuðir eru frá því að Evrópumótið fór síðast fram, í Portúgal undir lok síðasta árs en því móti, sem fara átti fram árið 2020, hafði verið frestað vegna kórónuveirufaraldursins.
Alls sendir Ísland fimm lið til keppni á mótinu í ár, eða í öllum flokkum nema blönduðum liðum fullorðinna.
Mótið hefst í dag á keppni unglinga, þar sem keppt er í drengja-, stúlkna- og blönduðum flokki, í undanúrslitum. Undanúrslitin hjá fullorðnum eru svo á morgun.

Kvennalandslið Íslands á eins og fyrr segir titil að verja eftir að hafa unnið til gullverðlauna í fyrra í þriðja sinn, eftir harða baráttu við Svía líkt og svo oft áður. Karlalandsliðið náði sömuleiðis sínum besta árangri þegar liðið vann til verðlauna í fyrsta sinn með því að hafna í 2. sæti.
Ásta Kristinsdóttir og Helgi Laxdal Aðalgeirsson, sem valin voru í úrvalslið EM í fyrra, eru á sínum stað í íslenska hópnum en íslenski hópurinn varð aftur á móti fyrir miklu áfalli rétt fyrir mót, þegar Kolbrún Þöll Þorradóttir, sem varð í 2. sæti í kjöri íþróttamanns ársins í fyrra, sleit hásin á æfingu. Huggun er þó harmi gegn að Andrea Sif Pétursdóttir snýr aftur eftir að hafa slasast illa á EM í fyrra.
Alls eiga sautján lönd lið á EM í ár og þau skipa 598 keppendur, þar af 318 fullorðnir en 280 unglingar. Mótinu lýkur á laugardag með úrslitum í flokki fullorðinna.