Lífið

Söng­konan Jody Miller er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Jody Miller árið 1965 þegar hún sló í gegn með lagið Queen of the House.
Jody Miller árið 1965 þegar hún sló í gegn með lagið Queen of the House. Getty

Bandaríska söngkonan Jody Miller, sem er einna þekktust fyrir að sungið lagið Queen of the House, er látin, áttræð að aldri.

Söngkonan, sem vann meðal annars til Grammy-verðlauna á ferli sínum, lést í Blanchard í Oklahoma í gærmorgun eftir áralanga baráttu við Parkinson að því er segir í frétt Reuters.

Miller fæddist í Phoenix í Arizona árið 1941 og skrifaði undir plötusamning hjá Capitol Records árið 1962. Hún gaf út sína fyrstu þjóðlagaplötu, Wednesday’s Child is Full of Woe, ári síðar.

Miller sló í gegn þegar hún gaf út kántrípoppslagarann Queen of the House árið 1965 og vann hún meðal annars til Grammy-verðlauna fyrir lagið. Þá seldist platan Home of the Brave einnig í bílförnum, þrátt fyrir að hafa verð á bannlista margra útvarpsstöðva á þessum tíma.

Meðal annarra laga Miller sem nutu vinsælda má nefna lög á borð við He's So Fine, Baby I’m Yours og There’s a Party Goin’ On.

Miller hætti að mestu söngferli sínum snemma á níunda áratugnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.