Lífið

„Göngu­grinda­hlaup og hjóla­­stólarallý“ á vin­­sælum böllum Hrafnistu

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Hjördís Geirsdóttir syngur reglulega fyrir heimilismenn sem dansa við ljúfa tóna.
Hjördís Geirsdóttir syngur reglulega fyrir heimilismenn sem dansa við ljúfa tóna.

Svokallað göngugrindahlaup og hjólastólarallý eru vikulegir viðburðir á Hrafnistu að sögn söngkonu sem syngur reglulega fyrir heimilismenn. Hún segir söng og dans færa eldra fólki ómælda hamingju.

DAS-bandið hefur verið að störfum í yfir tuttugu ár en forsprakki þess er Böðvar Guðmundsson. Hann skipaði bandið ásamt Kristjáni Þorkelssyni í upphafi en síðan hafa bæst við bæði heimilismenn Hrafnistu og gamlir kunningjar Böðvars.

Bandið hefur líklega aldrei verið jafn fjölmennt og nú. Söngkonan Hjördís Geirsdóttir bættist við þetta vinsælasta band eldri kynslóðarinnar í faraldri kórónuveirunnar en bandið spilar reglulega á Hrafnistuheimilunum og við öll tilefnefni eins og sést í fréttinni hér að neðan.

DAS-bandið er eitt af fáum hljómsveitum sem ná eldri kynslóðinni út á dansgólfið í trylltum dansi. Hjördís segir að þeir sem ekki geta stigið dans vegna heilsubrests noti aðrar leiðir til að hreyfa sig um í takt við tónlistina.

„Það er göngugrindahlaup og hjólastólarallý. Fólkið er sumt því miður ekki lengur fært um að dansa. Ég er búin að syngja fyrir dansi svo lengi að þetta er það eina sem ég kann, að stjórna töktunum. Það er allt í lagi að hafa hjólastólarallý og göngugrindahlaupið, það er dásamlegt. Fólkið hreyfir sig og svo situr það í stólunum og syngur með, ég kalla það líka stólaleikfimi og stóladans,“ segir Hjördís Geirsdóttir, söngkona.

Hún segir sérstaklega gefandi að syngja fyrir þennan hóp fólks.

Hanga ekki í nútímanum

Það er algjör stemning hérna? 

„Já það er það, þetta er mjög skemmtilegt. Við erum að spila og syngja lögin sem fólkið kann. Við erum ekkert að hanga í nútímanum í dag.. Nýjasta lagið er óbyggðirnar kalla,“ segir Hjördís og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.