Af þeim sökum verður verðbólga á heimsvísu að meðaltali 4,1 prósent á árinu 2024. Þetta er meðal þess sem kemur fram í uppfærðri hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem birt var í hádeginu.
Hagvexti á heimsvísu á árinu 2022 er spáð 3,2 prósent, sem er óbreytt mat frá síðustu spá. Hins vegar hefur hagvaxtarspá ársins 2023 verið færð niður um 0,2 prósentustig í 2,7 prósent á næsta ári. Tekið er fram í umfjöllun AGS að hagvaxtarspá næsta árs sé háð töluverðri óvissu. Töluverðar líkur séu á því að hagvöxtur á heimsvísu verði undir 2 prósentum á næsta ári.
Meira en þriðjungur heimshagkerfisins mun dragast saman á þessu ári eða hinu næsta samkvæmt spánni. Þrjú stærstu hagkerfin – Bandaríkin, Evrópusambandið og Kína – munu áfram hökta. „Í stuttu máli þá er hið versta ennþá eftir og mörgum mun finnast árið 2023 hafa yfir sér kreppublæ,“ er haft eftir Pierre-Olivier Gourinchas, aðalhagfræðingi AGS.
Verðbólgan kom á óvart
Fram kemur í umfjöllun AGS að mikil verðbólga á árunum 2021 og 2022 hafi komið mörgum í opna skjöldu, þar á meðal hagfræðingum á plani innan AGS. Bendir sjóðurinn á að þeir sem spá fyrir um efnahagsþróun hafi líkast til vanmetið hversu öflug viðspyrna alls efnahagslífs var á árinu 2021.
Þar að auki hafi efnahagsaðgerðir vegna heimsfaraldurs í þróuðum hagkerfum lagt að mörkum til verðbólgu, auk þess sem hökt í alþjóðlegum birgðakeðjum og sterkur vinnumarkaður lagði af mörkum til verðlagshækkana.
Stærstu seðlabankar heims hafa allir hækkað vexti nokkuð ört á síðustu mánuðum til að bregðast við hækkandi verðlagi. AGS bendir hins vegar á að sökum hversu mikil verðbólgan er um þessar mundir, er raunvextir í stærstu hagkerfum heims enn neikvæðari en þeir voru fyrir heimsfaraldur.
Einna mestur hagvöxtur á Íslandi
AGS spáir því að hagvöxtur á Íslandi verði 5,1 prósent á árinu 2022 og 2,9 prósent á hinu næsta. Íslandi er spáð einna mestum hagvexti í Evrópu á yfirstandandi ári, en Portúgal, Slóveníu, Andorra og Möltu er spáð meiri vexti en Íslandi.