Innherji

AGS: Verð­bólga á heims­vísu nálgast hæsta gildi

Þórður Gunnarsson skrifar
„Í stuttu máli þá er hið versta ennþá eftir og mörgum mun finnast árið 2023 hafa yfir sér kreppublæ,“ sagði  Pierre-Olivier Gourinchas, aðalhagfræðingur AGS.
„Í stuttu máli þá er hið versta ennþá eftir og mörgum mun finnast árið 2023 hafa yfir sér kreppublæ,“ sagði  Pierre-Olivier Gourinchas, aðalhagfræðingur AGS.

Verðbólga á heimsvísu mun ná hámarki síðar á þessu ári í 8,8 prósentum og síðan lækka til baka á næsta ári og mælast þá að meðaltali um 6,5 prósent. Verðlagshækkanir verða hins vegar þrálátari og langdregnari en áður var talið. 

Af þeim sökum verður verðbólga á heimsvísu að meðaltali 4,1 prósent á árinu 2024. Þetta er meðal þess sem kemur fram í uppfærðri hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem birt var í hádeginu.

Hagvexti á heimsvísu á árinu 2022 er spáð 3,2 prósent, sem er óbreytt mat frá síðustu spá. Hins vegar hefur hagvaxtarspá ársins 2023 verið færð niður um 0,2 prósentustig í 2,7 prósent á næsta ári. Tekið er fram í umfjöllun AGS að hagvaxtarspá næsta árs sé háð töluverðri óvissu. Töluverðar líkur séu á því að hagvöxtur á heimsvísu verði undir 2 prósentum á næsta ári.

Meira en þriðjungur heimshagkerfisins mun dragast saman á þessu ári eða hinu næsta samkvæmt spánni. Þrjú stærstu hagkerfin – Bandaríkin, Evrópusambandið og Kína – munu áfram hökta. „Í stuttu máli þá er hið versta ennþá eftir og mörgum mun finnast árið 2023 hafa yfir sér kreppublæ,“ er haft eftir Pierre-Olivier Gourinchas, aðalhagfræðingi AGS.

Verðbólgan kom á óvart

Fram kemur í umfjöllun AGS að mikil verðbólga á árunum 2021 og 2022 hafi komið mörgum í opna skjöldu, þar á meðal hagfræðingum á plani innan AGS. Bendir sjóðurinn á að þeir sem spá fyrir um efnahagsþróun hafi líkast til vanmetið hversu öflug viðspyrna alls efnahagslífs var á árinu 2021. 

Þar að auki hafi efnahagsaðgerðir vegna heimsfaraldurs í þróuðum hagkerfum lagt að mörkum til verðbólgu, auk þess sem hökt í alþjóðlegum birgðakeðjum og sterkur vinnumarkaður lagði af mörkum til verðlagshækkana.

Stærstu seðlabankar heims hafa allir hækkað vexti nokkuð ört á síðustu mánuðum til að bregðast við hækkandi verðlagi. AGS bendir hins vegar á að sökum hversu mikil verðbólgan er um þessar mundir, er raunvextir í stærstu hagkerfum heims enn neikvæðari en þeir voru fyrir heimsfaraldur.

Einna mestur hagvöxtur á Íslandi

AGS spáir því að hagvöxtur á Íslandi verði 5,1 prósent á árinu 2022 og 2,9 prósent á hinu næsta. Íslandi er spáð einna mestum hagvexti í Evrópu á yfirstandandi ári, en Portúgal, Slóveníu, Andorra og Möltu er spáð meiri vexti en Íslandi.


Tengdar fréttir

Flýja hlutabréf vegna óvissu og lækkana á erlendum mörkuðum

Þótt efnahagshorfurnar hér á landi séu um margt betri en í okkar helstu viðskiptalöndum þá hafa verðlækkanir á íslenska hlutabréfamarkaðinum í mörgum tilfellum verið meiri en þekkist erlendis og er Úrvalsvísitalan niður um 15 prósent frá því um miðjan september. Áframhaldandi sala erlendra sjóða, aukin skortsala og hrina veðkalla gagnvart skuldsettum fjárfestum skýrir meðal annars þróunina að undanförnu, að sögn viðmælenda Innherja.

Fjárfestar telja að Seðlabankanum takist að kæla hagkerfið

Verðbólguálagið á skuldabréfamarkaði hefur komið hratt niður síðan peningastefnunefnd kom saman í ágúst, bæði í gegnum lækkun á óverðtryggðu kröfunni og hækkun á þeirri verðtryggðu. Það er lýsandi fyrir væntingar fjárfesta um að Seðlabankanum sé að takast að kæla hagkerfið með aðgerðum sínum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×