Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að það bæti í úrkomu sunnan- og vestanlands um tíma í kvöld.
„Víða hæglætisveður á morgun, en allvíða norðaustan kaldi annað kvöld og éljagangur við norðurströndina. Kólnar smám saman.
Síðan er útlit fyrir norðlæga átt dagana þar á eftir með ofankomu á köflum fyrir norðan, en lengst af bjart og þurrt veður syðra. Fremur kalt í veðri,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Austlæg eða breytileg átt 3-8 m/s, en norðaustan 5-13 um kvöldið. Él við norðurströndina, annars yfirleitt þurrt veður og víða bjart sunnan heiða. Hiti 0 til 6 stig yfir daginn, mildast syðst á landinu.
Á föstudag: Norðan 8-15, hvassast við norðurströndina. Snjókoma eða él á norðanverðu landinu, en bjartviðri sunnanlands. Hiti kringum frostmark.
Á laugardag: Gengur í norðaustan og norðan 10-18. Snjókoma eða slydda norðanlands, en rigning með austurströndinni. Þurrt að kalla sunnan heiða. Hiti 0 til 5 stig.
Á sunnudag: Norðan 8-15. Dálítil él á Norður- og Austurlandi, en bjartviðri sunnan- og vestanlands. Lægir um kvöldið. Frost 0 til 4 stig, en frostlaust við suðurströndina yfir daginn.
Á mánudag og þriðjudag: Útlit fyrir suðvestlæga átt. Skýjað vestanlands og hlýnar þar, en léttskýjað annars staðar og fremur kalt í veðri.