Handbolti

Óðinn markahæstur í öruggum Evrópusigri Kadetten

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson átti virkilega flottan leik fyrir Kadetten í kvöld.
Óðinn Þór Ríkharðsson átti virkilega flottan leik fyrir Kadetten í kvöld. vísir/eyþór

Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæsti maður vallarins er svissneska liðið Kadetten Schaffhausen vann öruggan átta marka sigur gegn Fejer B.A.L-Veszprém í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld, 25-33.

Gestirnir í Kadetten, undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar, byrjuðu leikinn af miklum krafti og náðu fljótt fimm marka forystu. Því forskoti hélt liðið út fyrri hálfleikinn, en staðan var 11-16, Kadetten í vil, þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Gestirnir héldu svo öruggu forskoti sínu allan síðari hálfleikinn, en heimamenn í Veszprém náðu aldrei að komast nær en að minnka muninn niður í þrjú mörk. Svissneska liðið vann því að lokum frekar öruggan átta marka sigur, 25-33.

Óðinn Þór var sem áður segir markahæsti maður vallarins, en hann skoraði tíu mörk úr jafn mörgum skotum fyrir gestina. Kadetten er nú með tvö stig eftir tvo leiki, en Veszprém er hins vegar enn án stiga. 

Twitter-reikningur Evrópudeildarinnar birti myndband eftir leikinn með nokkrum af mörkum Óðins, en myndbandið má sjá hér fyir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×