Reima á sig dansskóna
Lunch Beat er fjölþjóðlegt dansverkefni sem á rætur sínar að rekja til Svíþjóðar. Danshópurinn Choreography Reykjavík hélt viðburðaröð í Reykjavík frá árunum 2012-2016 við mikinn meðbyr.
Hafa nýir kyndilberar í formi dansarana Olgu Maggýjar og Rebekku Sólar, sem fara fyrir skapandi listahópnum dans.i.space, tekið við keflinu og endurvakið þessa viðburði.
„Lunch Beat snýst um að dansa, fólk kemur saman í öruggu skjóli, hádegishlé frá vinnu eða dagsins verkefnum, og dansar saman í klukkustund. Boðið er upp á léttar veitingar og nú er kominn tími til að reima á sig dansskóna og dansa sig inn í veturinn,“ segir í fréttatilkynningu en viðburðinn hefst klukkan 13:00.
Gefa dansinum pláss
Blaðamaður heyrði í Rebekku Sól og spurði við hverju gestir mega búast.
„Stanslausu stuði náttúrulega og vonandi getur fólk aðeins tekið frí frá vinnunni sinni, komið og hugsað um eitthvað annað en skyldurnar sínar.“
Hún segir fleiri Lunch Beat viðburði vera í vinnslu og það sé ýmislegt um að vera hjá henni og Olgu Maggý.
„Það eru alls konar viðburðir framundan og það er allt eitthvað sem tengist dansi og gefur dansinum pláss.“
Aðspurð hvað henni finnist skemmtilegast við að dansa segir Rebekka:
„Það er svo margt sem manni dettur í hug en samt er svo erfitt að setja það í orð. Fyrir mig hjálpar það við að hugsa ekki um neitt annað en bara að dansa og sleppa mér. Það leyfir manni líka að vera bara maður sjálfur. Maður þarf ekkert að pæla í því hvernig maður lítur út.“
Fólk er því hvatt til sleppa allri sjálfsmeðvitund og einfaldlega njóta og dansa eins og enginn sé að horfa.
Viðburðurinn er hluti af Off-Venue dagskrá Iceland Airwaves sem hefst einmitt á morgun. Hér má finna stefnulýsingu LUNCH BEAT:
1. Ef þetta er þitt fyrsta skipti á Lunch Beat, þá þarftu að dansa.
2. Ef þetta er þitt þriðja eða fjórða skipti á Lunch Beat, þá þarftu að dansa.
3. Ef þú ert orðið of þreytt til að dansa á Lunch Beat, þá máttu vinsamlegast fá þér hádegismat annars staðar.
4. Bannað er að ræða vinnuna þína á Lunch Beat.
5. Á Lunch Beat eru allir sem viðstaddir eru dansfélagi þinn í klukkustund.
6. Allir Lunch Beat viðburðir skulu vera ein klukkustund að lengd.
7. Lunch Beat býður öllum gestum sínum upp á 1 x DJ-Set og næringu í einhverju formi.
8. Vatn er alltaf frítt og aðgengilegt á öllum Lunch Beat viðburðum.
9. Lunch Beat reynir að vera vímulaust umhverfi.
10. Lunch Beat getur verið sett upp hvar sem er, svo lengi sem viðburðirnir eru ekki í fjáröflunarskyni, eru opnir almenningi, og unnir undir þessari stefnulýsingu.
„Notkun stórra myndavéla, flass eða vídeóvéla er ekki leyfð án leyfis,“ segir að lokum í fréttatilkynningunni.