Horfir þú meira á skjáinn en í augu makans?
Notkun samfélagsmiðla er orðinn nokkuð stór partur af lífi margra og hefur þróunin í samskiptum í þessum hliðarheimi, ef svo má kalla, verið hröð og kannski of hröð fyrir okkur til að aðlagast.
Hversu mikið af daglegum samskiptum okkar fer fram í gegnum þessa miðla? Hvers eðlis eru þau og hve miklum tíma eyðum við með augun límd við skjáinn?
Ætli síminn sé mögulega orðinn ein stærsta ógn nándar og innileika í ástarsamböndum?
Dæmi um samfélagsmiðlanotkun sem gæti orsakað vandamál í samböndum:
- Finnst þér maki þinn eyða of miklum tíma á samfélagsmiðlum? Skoða myndir og myndbönd, spjalla við vini, vinnufélaga eða ættingja eða birta efni.
- Fara innileg samskipti ykkar á milli, ástarorð, samtöl eða ágreiningur, frekar fram á samfélagsmiðlum en augliti til auglits?
- Finnst þér maki þinn sýna of mikið frá lífi ykkar eða angrar það þig ef maki þinn sýnir ekkert frá ykkar sambandi og lífi á samfélagsmiðlum, birtir aldrei mynd af þér?
- Finnst þér eins og maki þinn sé að fela samskipti fyrir þér á samfélagsmiðlum eða sé á einhvern hátt óviðeigandi í samskiptum og/eða hegðun á samfélagsmiðlum?
- Finnst þér maki þinn upptekinn af því að búa til ákveðna ímynd fyrir samfélagsmiðla? Jafnvel eyðileggja dýrmætar stundir með því að þurfa að taka þær upp eða stilla þeim aftur upp til að einungis deila á samfélagsmiðlum?
- Upplifir þú ákveðna kvöð á sífelldum samskiptum við maka á samfélagsmiðlum, til dæmis í vinnu, á viðburðum eða þegar þið eruð aðskilin?
Spurningu vikunnar er að þessu sinni beint til allra þeirra sem eru í ástarsamböndum.
Er samfélagsmiðlanotkun maka vandamál í sambandinu?
Makamál hafa síðustu þrjú ár spurt lesendur Vísis nær vikulega um þeirra skoðanir og viðhorf varðandi málefni tengd ástinni, samböndum, tilfinningum og kynlífi.
Fyrir áhugasama er hægt að nálgast allar fyrri Spurningar vikunnar og niðurstöður hér.