Lífið

Heillaði dóm­­nefndina með frum­­sömdu lagi: Missti for­eldra sína og var ætt­­leiddur sjö ára gamall

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Úlfur á magnaða sögu að baki og heillaði Idol dómnefndina algjörlega upp úr skónum.
Úlfur á magnaða sögu að baki og heillaði Idol dómnefndina algjörlega upp úr skónum.

Annar þátturinn af Idol var sýndur á Stöð 2 í gærkvöldi og áfram var fylgst með áheyrnarprufum. Á meðal keppenda var Þórður Alexander Úlfur Júlíusson, betur þekktur sem Úlfur og óhætt er að segja að frammistaða hans láti engan ósnortinn.

Úlfur er 25 ára kokkur frá Ísafirði og er með tónlistina í blóðinu.

„Fólkið sem ól mig upp, amma mín og afi, þau voru rosalega mikið tónlistarfólk.  Amma mín var Ásthildur Cecil í Sokkabandinu, sem var rokkband á áttunda áratugnum og afi var í lúðrasveitinni. Þegar ég var í níunda bekk byrjaði ég í kjallarahljómveit með vinum mínum og ég fór og spilaði á aldrei fór ég Suður þegar ég var í níunda bekk.“

Úlfur mætti með gítarinn sinn í áheyrnarprufurnar og flutti þar lag sem hann samdi sjálfur. Lagið er sprottið út frá persónulegri reynslu.

„Mamma mín og pabbi voru í mikilli neyslu þegar ég var lítill og ég missti þau þegar ég var bara „baby“. Þannig að þetta er svolítið um það, og líka kanski mína upplifun af lífinu,“ sagði Úlfur áður en hann hóf flutninginn. „Ég var 12 ára þegar pabbi minn dó, 15 ára þegar mamma mín dó. En ég var ættleiddur þegar ég var 7 ára.“

Saga Úlfs og flutningur hans á laginu fangaði hug og hjörtu dómnefndarinnar. Sjálfur átti Úlfur erfitt með að halda aftur af tárunum.

„Ég er bara ástfanginn af þér, það er bara þannig. Ég er ekki ennþá búinn að hrista af mér gæsahúðina,“ sagði Herra Hnetusmjör áður en dómnefndin veitti Úlfi einróma já.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.