Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi mætti í gær á opinn fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til að ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Eins og þekkt er seldi Bankasýslan, fyrir hönd íslenska ríkisins, 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka fyrir tæplega 53 milljarða króna í mars með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi. Gengið var rétt ríflega fjórum prósentum lægra en síðasta dagslokagengi.
Á fundinum spurðu þingmennirnir Ásthildur Lóa Þórsdóttir í Flokki fólksins; Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírati og Þórunn Sveinsbjarnadóttir í Samfylkingu um hæfi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra varðandi söluna.
Fram hefur komið í fjölmiðlum að faðir Bjarna, Benedikt Sveinsson fjárfestir, var á meðal kaupenda að bankanum í útboðinu.
Við leituðum ekki til systurstofnana okkar.
Guðmundur Björgvin sagði að Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlit Seðlabankans hafi „alla burði til að varpa fullnægjandi ljósi“ á framkvæmd sölunnar.
Um var að ræða svokallað hraðað tilboðsfyrirkomulag (e. Accelerated Book Build Offering). Það hófst eftir lokun markaða hinn 22. mars og lauk klukkan 21.30 sama dag. Hefði verið tilkynnt um útboðið með talsverðum fyrirvara væru líkur á að gengið myndi falla í ljósi þess að fjárfestar reiknuðu með miklu framboði af bréfum. Við það myndi ríkið fá minna fyrir hlutabréfin. Auk þess yrði ríkið enn stærsti hluthafi Íslandsbanka eftir söluna og því hefur það hagsmuni að gæta að gengisþróunin verði hagfelld á næstu misserum.
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á fundinum að Ríkisendurskoðun hafi þá skoðun að tilboðsfyrirkomulag samræmist illa opinberri stjórnsýslu. Hún sagði að engu að síður hafi Bretland, Belgía, Holland, Írland, Spánn, Svíþjóð og Þýskland stuðst við tilboðsfyrirkomulag við sölu á hlutum í sínum bönkum. Hildur spurði hvort Ríkisendurskoðun hafi leitað til systurstofnanna þessara ríkja til að leita svara um hvort fyrirkomulagið hafi reynst illa þar og hvort sambærileg gagnrýni hafi sprottið fram í þeim löndum.
„Við leituðum ekki til systurstofnana okkar,“ svaraði Guðmundur Björgvin. „Við litum svo á að við værum á að horfa á framkvæmd sölunnar á Íslandi.“ Hann sagði að Ríkisendurskoðun hafi talið sig hafa fullnægjandi upplýsingar til að leggja sjálfstætt mat á málið.
Guðmundur Björgvin sagði að söluaðferðin hafi „marga góða kosti“. Hins vegar hafi hún sömuleiðis ágalla sem „magnist upp“ í litlu samfélagi, þar sem tengsl eru víða.
Lilja Rannveig Sigurðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði í ljósi þess að reynsla Ríkisendurskoðunar af lokuðum hlutafjárútboðum væri mun minni en söluráðgjafanna Citi, J.P. Morgan og STJ Advisors, hvort Ríkisendurskoðun leiti almennt til systurstofnanna ef mál séu af svipuðum toga.
Guðmundur Björgvin sagði að það væri í undantekningar tilfellum sem stofnunin leiti til systurstofnanna. Ríkisendurskoðun hafi ráðið utanaðkomandi sérfræðing „ekki til að gefa okkur ráð hvernig tilboðsfyrirkomulag spilist út“ heldur til að aðstoða við að skilja tilvísanir Bankasýslunnar „um venjur á fjármálamarkaði“ og hjálpa til við að greina tilboðsbók.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafði orð á því að niðurstaða Ríkisendurskoðunar væri ekki nægilega skýr. Meginniðurstaðan væri að salan hafi verið ríkissjóði hagfelld.
Það þarf að lesa þessa skýrslu með soldið góðum skammti af sköpunargáfu, til að lesa það út að þetta sé meginniðurstaða skýrslunnar.
Guðmundur Björgvin sagði að það væri ekki rétt að það væri meginniðurstaðan Ríkisendurskoðunar. „Það þarf að lesa þessa skýrslu með soldið góðum skammti af sköpunargáfu, til að lesa það út að þetta sé meginniðurstaða skýrslunnar. Skýrsla Ríkisenduskoðunar er um framkvæmdina, um ferðalagið, ekki áfangastaðinn,“ sagði hann og nefndi að ummæli um að salan hafi verið hagfelld séu fyrirvari á gagnrýnina „á ferðlagið.“ Salan hafi sannarlega verið hagfelld. „Ég er sammála því,“ sagði Guðmundur Björgvin. „Þótt niðurstaðan hafi verð hagfelld er ekki þar með sagt að ferðalagið hafi verið jafn hagfellt.“
Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að Ríkisendurskoðun Bretlands hafi spurt í sambærilegri skýrslu hvort bankasalan hafi skilað ábata, hvort viðeigandi aðferð hafi verið valin, hvort tímasetning og umgjörð sölunnar hafi verið rétt og hvort verðið hafi verið sanngjarnt. Hún vildi heyra hvernig þær spurningar horfðu við Ríkisendurskoðun.
„Skýrslan okkar var um framkvæmd söluferlisins,“ sagði Guðmundur Björgvin og nefndi að þótt stofnunin ákveði sjálf hvað sé skoðað og með hvaða hætti hafi komið beiðni frá fjármálaráðuneytinu um að beina ætti sjónum að framkvæmd sölunnar.
Guðmundur Björgvin sagði að það væri „akademísk spurning“ hvaða söluaðferð hafi verið heppilegust. Sama eigi við tímasetningu. „Það eru einfaldlega ákvarðanir sem ráðherra tekur,“ segir hann og nefndi að það hafi ekki verið „gagnlegt fyrir Ríkisendurskoðun að reyna að véfengja þær“. Ríkisendurskoðun ráðist ekki í „hvað ef“ greiningar. „Það gerum við ekki.“
Guðmundur Björgvin sagði að Ríkisendurskoðun telji þó hugsanlegt að verðið hafi verið sanngjarnt. „Við teljum hugsanlegt að betri greining [á tilboðsbók, innsk. blm.] hefði leitt til enn hagfelldari niðurstöðu.“
Ríkisendurskoðandi sagði að það væri ekki rétt sem komið hafi fram í almennri umræðu að stofnunin telji að ríkið hafi átt að selja á síðasta dagslokagengi fyrir söluna, 122 eða á genginu 120,5.
Hildur sagði að það hafi verið 120 prósent umframeftirspurn á genginu 122. Það hefði verið óábyrgt að selja á því verði. Það hafi þurft tvisvar til þrisvar sinnum umframeftirspurn.
Guðmundur Björgvin, sagðist taka undir orð Hildar, að það hafi verið „óraunhæft“ að selja á genginu 122.
Rétt er að rifja upp að gengi Nova lækkaði eftir strax frumútboð sitt í sumar vegna þess að hve lítil umframeftirspurn var frá fagfjárfestum, að því er fram hefur komið í fréttum.
Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, staðgengill ríkisendurskoðanda, sat einnig fyrir svörum hjá nefndinni. Hún sagði að það hafi verið örlítið minni eftirspurn á genginu 118 en 117. Bankasýslan hafi ekki áttað sig á því. Þær upplýsingar hefðu leitt til þess að samningsstaðan við erlenda fjárfesta yrði betri. Að sama skapi hefði einungis einn lífeyrissjóður dottið úr skaftinu hefði sölugengið verið 118 krónur á hlut.
Fram kom í glærukynningu sem stjórnendur STJ Advisors, ráðgjafa Bankasýslunnar við söluna á Íslandsbanka, kynntu fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fyrir skemmstu að það sé þeirra „faglega mat“ að útboðsgengið 117 krónur á hlut hafi verið „eins gott og hugsast gat“ (e.optimal) með hliðsjón af þeim yfirlýstu markmiðum sem stjórnvöld höfðu sett við söluferlið.
Stjórnendurnir sögðu að ef reynt hefði verið að fá hærra verð en 117 krónur á hlut í útboðinu í mars, hefði skapast sú hætta að horfið yrði frá stórum hluta af pöntunum, þar á meðal frá „hágæða fjárfestum“ og núverandi hluthöfum. Allar nauðsynlegar upplýsingar sem máli skiptu um mögulega heildareftirspurn fjárfesta hafi legið fyrir þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð hafi verið tekin.
Þórhildur Sunna spurði hvort Bankasýslan hafi ekki þurft að fá upplýsingar um raunverulega eigendur þeirra félaga sem buðu í bankann. Mögulega gæti sami aðili verið á bak við mörg félög.
Ríkisendurskoðandi benti á að viðskiptasambandið væri á milli söluaðila, það er fjármálastofnunarinnar og fjárfestanna. „Söluaðilar vita hverjir þetta eru. Tilboðsfyrirkomulag felur í sér að söluaðila er falið verulegt traust. Við teljum að það hafi mátt koma til álita að setja söluaðila skýrari reglur.“
Útboðið markaði tímamót fyrir íslenskan verðbréfamarkað, að mati STJ Advisors, í ljósi stærðar viðskiptanna, hvernig þau voru uppbyggð og tímasetningu. Um var að ræða fyrsta stóra útboðið í Evrópu með slíku tilboðsferli eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Að auki var vakin athygli á í glærukynningunni að útboðið hafi farið fram án þess að upplýsingar hefðu lekið til þeirra sem ekki ættu að vita af því.
Til að leggja mat á hve vel útboðið gekk horfa stjórnendur STJ Advisors meðal annars til umfangs sölunnar í hlutfalli við veltu með hlutabréf bankans á markaði. Niðurstaða útboðsins var að frávikið frá síðasta dagslokagengi Íslandsbanka var hið minnsta, þegar litið er til sambærilegs útboðs sem nemur meira 200 dag veltu, sem sést hefur síðan árið 2019. Það þykir þeim merkilegt í ljósi þess að upphaflega stóð til að selja 15 prósenta hlut í Íslandsbanka en að lokum var ákveðið að auka umfangið í 22,5 prósent. Það er 50 prósenta munur og þykir mikil stækkun.
Útboð Íslandsbanka nam um 300 daga veltu með bréfin á markaði. Vakin var athygli á í glærukynningunni að meðtalið fyrir slík útboð í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku, væri um 40 dagar. Að auki jafngilti salan á Íslandsbanka tíu daga veltu alls íslenska hlutabréfamarkaðarins.