Viðskipti erlent

Rann­saka stofnanda FTX vegna gruns um markaðs­mis­notkun

Kjartan Kjartansson skrifar
Sam Bankman-Fried var eigandi bæði FTX og vogunarsjóðsins Alameda Research. Til rannsóknar er hvort hann hafi stundað sýndarviðskipti til að hafa áhrif á gengi tveggja rafmynta til að hjálpa fyrirtækjunum tveimur.
Sam Bankman-Fried var eigandi bæði FTX og vogunarsjóðsins Alameda Research. Til rannsóknar er hvort hann hafi stundað sýndarviðskipti til að hafa áhrif á gengi tveggja rafmynta til að hjálpa fyrirtækjunum tveimur. Vísir/Getty

Bandarískir alríkissaksóknarar eru nú sagðir rannsaka hvort að Sam Bankman-Fried, stofnandi fallna rafmyntafyrirtækisins FTX, hafi gerst sekur um markaðsmisnotkun með því að hafa áhrif á gengi tveggja rafmynta.

FTX, þriðja stærsta rafmyntakauphöll heims, óskaði eftir gjaldþrotameðferð í kjölfar lausafjárþurrðar í síðasta mánuði. Viðskiptavinir fyrirtækisins gerðu áhlaup og tóku út innistæður sína upp á milljarða dollara eftir að fréttir bárust af því að nátengt fyrirtæki stæði á brauðfótum.

Fall FTX er til rannsóknar hjá saksóknurum og fjármálayfirvöldum vestanhafs. Til skoðunar er hvort að FTX hafi notað innistæður viðskiptavina á ólöglegan hátt. Fjölmiðlar hafa greint frá því að Bankman-Fried hafi látið FTX bjarga Alameda Research, vogunarsjóði sem hann átti, fyrir horn þegar fyrirtækið lenti í greiðsluvanda fyrr á þessu ári.

Nú segir New York Times að saksóknarar á Manhattan rannsaki einnig hvort að Bankman-Fried hafi stýrt gengi tveggja tengdra rafmynta, TerraUSD og Luna, í þágu FTX og Alameda. Blaðið segir rannsóknina á frumstigi og óljóst hvort að Bankman-Fried sé talinn hafa framið glæp.

Bankman-Fried segir blaðinu að hann hafi ekki vitað af neinni markaðsmisnotkun og að hann hafi sannarlega aldrei ætlað sér að stunda hana.

FTX er einnig til rannsóknar vegna hugsanlegra brota á bandarískum peningaþvottarlögum. Samkvæmt þeim verða fyrirtæki sem millifæra fjármuni að vita hverir viðskiptavinir þeirra eru og tilkynna yfirvöldum um grunsamlega gjörninga. Sú rannsókn er sögð hafa hafist nokkrum mánuðum áður en FTX féll.

Talið er að FTX skuldi fimmtíu stærstu kröfuhöfum sínum hátt á fjórða milljarð dollara.

Keppinauturinn hann sakaði um að vega að annarri mynt

Nokkrum dögum áður en FTX óskaði eftir gjaldþrotameðferð virtist Binance, stærsta rafmyntakauphöll heims, ætla að koma fyrirtækinu til bjargar. Þau kaup fóru þó nánast samstundis út um þúfur þar sem stjórnendum Binance leist ekki á blikuna eftir að hafa fengið að líta í bókhald FTX.

Changpeng Zhao, forstjóri Binance, virðist hafa verið ósáttur við Bankman-Fried og talið að hann stundaði sýndarviðskipti sem gætu grafið undan rafmyntariðnaðinum.

„Hættu núna, ekki valda meiri skaða. Því meira tjón sem þú veldur núna, því lengri verður fangelsisvistin,“ skrifaði Zhao í hópspjalli með Bankman-Fried og fleiri leiðtogum rafmyntafyrirtækja 10. nóvember en New York Times hefur skilaboð sem þeir sendu í dulkóðaða samskiptaforritinu Signal undir höndum.

Zhao sakaði Bankman-Fried sérstaklega um að nota vogunarsjóð sinn til þess að keyra niður verðið á rafmyntinni Tether sem er sérstaklega hönnuð til þess að vera á föstu gengi gagnvart Bandaríkjadollar.

Bankman-Fried segir New York Times að ásakanir Zhao væru fáránlegar. Viðskipti hans gætu ekki haft nein teljandi áhrif á gengi Tether. Hvork hann né Alameda hefði nokkru sinni reynt að rýra verðmæti Tether eða annarra fastgengisrafmynta „eftir því sem ég veit“.


Tengdar fréttir

Fallni raf­mynta­kóngurinn segist engin svik hafa framið

Sam Bankman-Fried, fyrrverandi forstjóri fallna rafmyntafyrirtækisins FTX, fullyrti að hann hefði ekki reynt að féfletta neinn þegar hann kom fram opinberlega í fyrsta skipti eftir gjaldþrotið í gær. Hann segist hvorki óttast saka- né skaðabótamál.

Milljarða­eignir FTX sagðar horfnar

Verulegum hluta eigna fallna rafmyntarkauphallarinnar FTX var stolið eða er horfinn, að sögn lögmanna fyrirtækisins. Lögmaður fyrirtækisins heldur því fram að Sam Bankman-Fried, fyrrverandi forstjóri FTX, hafi rekið það eins og persónulegt lén sitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×