Valur mun leika sinn sjötta leik í keppninni á morgun er Ystad heimsækir Hlíðarenda. Ystad byrjaði illa í keppninni, með tveimur tapleikjum, en hefur síðan unnið þrjá leiki í röð. Síðustu tveir leikir voru sigrar gegn Flensburg í Svíþjóð og á PAUC í Frakklandi, en þau voru fyrirfram talin sterkustu liðin í riðlinum.
Á blaðamannafundi í aðdraganda leiksins í dag greindi Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, frá því að þeir Róbert Aron Hostert og Magnús Óli Magnússon verði báðir frá í leiknum á morgun. Sömu sögu er að segja af Berg Elí Rúnarssyni.
Róbert Aron og Magnús Óli eru báðir rétthentir menn í ytri línu sóknarleiks Vals og missir liðið því tvo sterka pósta, í sókn og vörn, í sömu stöðu. Báðir hafa glímt við meiðsli um hríð en spilað í gegnum þau, en báðir óleikfærir á morgun.
Bergur Elí er hægri hornamaður en hann fékk vott af heilahristingi þegar hann fékk höfuðhögg í leik Vals við Aftureldingu í Olís-deildinni um helgina.
Valur er með fimm stig eftir fimm leiki í keppninni og er sæti neðar en Ystad sem er með sex stig.
Leikur liðanna hefst klukkan 19:45 á morgun og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsending hefst klukkan 19:15.