Arnór var gestur fjórða þáttar Stórasta landsins, hlaðvarpsþáttaraðar Stefáns Árna Pálssonar um framgöngu íslenska handboltalandsliðsins á Ólympíuleikunum í Peking 2008. Í fjórða þættinum var fjallað um jafntefli Íslands og Danmerkur í riðlakeppninni, 32-32.
Þeir Stefán Árni og Arnór fóru um víðan völl í viðtalinu og ræddu meðal annars um tímann hjá danska ofurliðinu AG Kaupmannahöfn sem Arnór lék með á árunum 2010-12. AG vann dönsku deildina bæði tímabil Arnórs hjá því og komst í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu vorið 2012. Skömmu síðar varð AG svo gjaldþrota.
„Það var rosalega erfitt. Þarna um vorið skrifaði ég undir þriggja ára framlengingu á samningi við AG. Svo erum við á Ólympíuleikunum í London og spilum aftur morgunleik gegn Túnis. Þetta var 1. ágúst 2012. Ég man mjög vel eftir þessu,“ sagði Arnór.
„Það komu einhverjar fréttir um að framkvæmdastjórinn okkar hefði hætt í lok júlí og við Snorri [Steinn Guðjónsson] hugsuðum hvort eitthvað væri að gerast. Við fengum alltaf sms þegar launin okkar komu. Þau komu inn um mánaðarmótin og ég hugsaði að við værum á lífi.“
En annað kom á daginn og Arnór frétti af gjaldþroti AG á nokkuð óvenjulegan hátt.
„Við fórum í morgunleik 1. ágúst, unnum og eftir leikinn mættu fréttamenn og sögðu jæja Arnór, hvernig líst þér á fréttirnar? Hvaða fréttir? spurði ég. AG er farið á hausinn. Það var risa sjokk, ég viðurkenni það alveg og átti nokkra erfiða daga í London með að meðtaka,“ sagði Arnór.
Hann og kona hans voru búin að koma sér vel fyrir í Kaupmannahöfn, fyrsta barn þeirra á leið í 1. bekk og annað á leiðinni.
„Þetta var rosa erfitt og eins og fyrir konurnar okkar. Meðan þær horfðu á leikinn í Danmörku kom allt í einu gulur borði á skjáinn að AG Kaupmannahöfn væri farið á hausinn. Þetta voru ansi erfiðir dagar og sem betur fer náðum við að einbeita okkur að leikunum,“ sagði Arnór sem gekk í raðir Flensburg eftir Ólympíuleikana í London.
Hlusta má á fjórða þátt Stórasta landsins í spilaranum hér fyrir ofan.