Veður

Vaxandi sunnan­vindur og hlýindi og rigning á morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Næstu daga er áfram útlit fyrir umhleypingar með lægðagangi og nokkuð órólegt veður með köflum
Næstu daga er áfram útlit fyrir umhleypingar með lægðagangi og nokkuð órólegt veður með köflum Vísir/Vilhelm

Norðvestanátt er á landinu nú í morgunsárið, strekkingur eða allhvöss að styrk, en hvassari vindstrengir á Austfjörðum fram eftir morgni. Gul viðvörun er í gildi á Austfjörðum til klukkan 10.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það séu dálítil él á norðanverðu landinu, en annars þurrt.

Í dag lægi svo víða og birtir upp með vægu frosti. Það léttir fyrst til vestan- og sunnanlands og síðdegis um landið norðaustanvert.

„Í kvöld og nótt er síðan vaxandi sunnanvindur á landinu og það má búast við hlýindum og rigningu á morgun, talsverð úrkoma sunnan- og vestanlands. Annað kvöld snýst síðan til vestlægari áttar með éljum og kólnar. Útlit er fyrir hvassa vestan- og suðvestanátt á föstudag með éljagandi, en þurru veðri austanlands. Hiti þá um eða undir frostmarki.

Næstu daga þar á eftir er síðan áfram útlit fyrir umhleypingar með lægðagangi og nokkuð órólegt veður með köflum,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Sunnan 10-18 m/s og rigning, einkum sunnan- og vestanlands. Hiti 5 til 12 stig. Vestlægari um kvöldið með éljum og kólnandi veðri.

Á föstudag: Vestan og suðvestan 15-23 og él, en þurrt austanlands. Hiti um eða undir frostmarki.

Á laugardag: Suðlæg átt með slyddu eða snjókomu, síðar talsverð rigning sunnan- og vestanlands. Hlýnandi veður.

Á sunnudag: Norðvestanátt og él, kólnar aftur.

Á mánudag og þriðjudag: Útlit fyrir áframhaldandi umhleypinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×