Hækkandi vöruverð hefur varla farið framhjá neinum. Veitingamaður í Vestmannaeyjum segir vöruinnkaup aldrei hafa verið dýrari á sama tíma og launakostnaður fari hækkandi.
„Þegar bæði launakostnaður, aðföng og fleiri gjöld hækka mikið þá er þetta bara nánast ómögulegt,“ segir Gísli Matthías Auðunsson, eigandi Slippsins og Næs.
Hann segir nauðsynlegt að rekstrarumhverfi veitingastaða verði endurskoðað. Nefnir hann sem dæmi að áfengisgjald sé hvergi eins hátt og á Íslandi.
Ósanngjarnt gagnvart minni fyrirtækjum
„Ég er alls ekki á móti launahækkunum hjá verkafólki, þvert á móti, en hvernig það er sett upp er mjög ósanngjarnt gagnvart minni og meðalstórum fyrirtækjum.“
Hann kallar eftir samtali á milli ríkis og lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
„Í hruninu var sett á tryggingagjald sem er mjög hátt fyrir hvern einasta starfsmann sem átti alltaf að taka eftir hrun en var aldrei gert. Síðan byrjar kvöldvinnukaup klukkan fimm á daginn á Íslandi. Allar kjaraviðræður, það eru aðallega stóru fyrirtækin sem hafa áhrif á þær þannig rödd lítilla fyrirtækja hefur týnst. Það er samt lang stærsti hluti íslenskra fyrirtækja.“
Getur ekki hækkað verð úr öllu valdi
Aðspurður hvort eina vitið sé ekki að hækka verð segir hann ómögulegt að hækka það um of.
„Ef ég myndi hækka nákvæmlega eins og ég þarf þá myndi ég ekki sjá neina kúnna þannig þetta er rosalega erfið staða.“
Margir hugsi um að leggja árar í bát.
„Já og meira að segja margir búnir að gefast upp. Rosalega margir sem hrista hausinn og skilja í rauninni ekki hvernig þetta á að fúnkera.“