Einar Jónsson þjálfari Fram sagði frá þessu í nýjasta þætti Handkastsins þar sem hann greindi frá því að Þorsteinn Gauti hefði meiðst í leik með finnska landsliðinu. Þorsteinn Gauti, sem á finnska ömmu, var valinn í landslið Finnlands í fyrsta sinn fyrir æfingamót í Lettlandi í byrjun janúar en meiddist þar.
Framarar spila gegn Aftureldingu í Úlfarsárdal í kvöld, sinn fyrsta leik í tæpa tvo mánuði, og freista þess að byrja seinni hluta tímabilsins af sama krafti og þann fyrri, en verða án Þorsteins Gauta.
„Gauti verður ekki með [í kvöld]. Hann var eftirminnilega kallaður inn í finnska landsliðið og fór þangað í æfinga- og keppnisferð, og slasaði sig nokkuð illa á ökkla í leik með þeim. Hann hefur ekkert æft með okkur og það er algjörlega óljóst hvenær hann kemur inn í þetta,“ segir Einar sem gat ekki nýtt krafta Þorsteins Gauta sem skyldi fyrir áramót, vegna meiðsla í olnboga.
„Hann var orðinn góður og hefði getað spilað með okkur af 100% krafti í janúar. Hann var í toppstandi þegar hann fór út en var óheppinn að lenda á ristinni á öðrum leikmanni svo ökklinn beyglaðist helvíti illa. Það er bara eins og gengur og gerist í þessu,“ segir Einar sem veit ekki hvenær Þorsteinn Gauti getur spilað á nýjan leik.
„Það eru komnar fjórar vikur síðan þetta gerðist og hann verður alla vega ekki með [í kvöld]. Við tökum stöðuna viku fyrir viku og þetta verður bara að koma í ljós.“
Hægt er að hlusta á nýjasta þátt Handkastsins hér að neðan en viðtalið við Einar er í lok þáttar.