Lífið

Klæðir sig upp fyrir lyfjagjöfina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hulda Halldóra segir það hluta af sinni leið að glíma við krabbameinið að klæða sig upp áður en farið er í lyfjagjöf. Hér er hún stórglæsileg á Landspítalanum.
Hulda Halldóra segir það hluta af sinni leið að glíma við krabbameinið að klæða sig upp áður en farið er í lyfjagjöf. Hér er hún stórglæsileg á Landspítalanum. Aðsend

Símtalið sem enginn vill fá en alltof margir neyðast til að taka. Lífið er skyndilega breytt. Stóru málin verða allt í einu að algjöru aukaatriði. Baráttan er fram undan.

Hulda Halldóra Tryggvadóttir stílisti og tveggja barna móðir var aðeins 34 ára þegar hún fékk símtalið. Hún var við störf á Skógum við tökur á þáttum fyrir Disney með Reykjavík studios. Spennandi verkefni sem á augabragði skipti engu máli.

„Þegar ég sá að spítalinn væri að hringja vissi ég að það væri slæmt,“ segir Hulda Halldóra beðin um að rifja upp umrætt símtal í október síðastliðnum.

„Ég átti von á símtali nokkrum vikum seinna en þetta var bara fjórum dögum eftir að ég fór í sýnatöku eftir að ég fann hnút í brjósti. Ég var á leið inn í langan vinnudag og henti öllu frá mér þegar síminn hringdi og hljóp ein út á eitthvað tún og fékk fréttirnar.“

Gaf sig ekki og fékk svar

Símtalið bar upp á föstudegi. Hjúkrunarfræðingur boðaði hana til fundar á mánudegi og hún beðin um að taka aðstandanda með sér.

„Miðað við þessar upplýsingar gat ég gefið mér að fréttirnar væru slæmar en hjúkrunarfræðingurinn mátti ekki segja mér neitt meira samkvæmt verklagsreglum. En ég gaf mig ekki og fékk á endanum þær upplýsingar að ég væri með illkynja krabbamein,“ segir Hulda Halldóra. Hún segist hafa hringt í algjörri geðshræringu í manninn sinn sem hafi ekki beðið boðana og sótt hana út á land.

Hulda Halldóra segir ráðgjöf frá Krafti hafa nýst vel þegar kom að því að segja sonum sínum frá tíðindunum.Úr einkasafni

„Á þeim tímapunkti hélt ég að ég væri að fara deyja og hugsaði um strákana okkar og framtíð þeirra. Eftir á að hyggja var mjög gott að vita þetta á föstudeginum þar sem ég hafði alla helgina til að meðtaka þessar upplýsingar og undirbúa mig fyrir fundinn á mánudeginum. Í öllu þessu ferli er óvissan alltaf verst og maður býr sig alltaf undir það versta, svo mér fannst gott að vita þetta strax.“

Æxlið fjarlægt og lyfjagjöf í gangi

Á hverju ári greinast um sjötíu ungir einstaklingar með krabbamein á Íslandi sem getur umturnað lífi þeirra og fólksins sem stendur þeim nærri. Hulda Halldóra er ein þeirra sem fékk óvænt það hlutverk að berjast við mein.

„Ég fór í aðgerð í nóvember þar sem æxlið var fjarlægt og er í miðri lyfjagjöf núna,“ segir Hulda Halldóra. Áhrifin á daglegt líf hafa verið mikil.

Lyfjagjöf við krabbamein fylgir hármissir. Hulda Halldóra ákvað fljótt að vera opinská í baráttu sinni.Aðsend

„Lífið hefur breyst mjög mikið þar sem ég var í krefjandi og skemmtilegri vinnu en er nú í leyfi. Lífið snýst núna fyrst og fremst um að njóta hversdagsins með börnunum mínum, manni, fjölskyldu og vinum. Í svona meðferð á maður bæði slæma og góða daga. Fyrsta vikan eftir lyfjagjöf er mér alltaf erfið en svo er allt upp á við og ég hef sett mér það markmið að hafa alltaf eitthvað skemmtileg til að hlakka til á góðu dögunum,“ segir Hulda Halldóra.

Hún sjái lífið í nýju ljósi og kunni betur að meta litlu hlutina í hversdagsleikanum.

Gleðistund að sötra kaffi eftir ógleðina 

„Til dæmis þegar ég get byrjað að fá mér kaffi aftur eftir ógleði sem fylgir lyfjagjöfinni. Þá veit ég að betri dagar eru fram undan og allt er upp á við.“

Vænta má að fólk fari ólíkar leiðir til að takast á við svo stór verkefni eins og baráttu fyrir lífi sínu.

„Mín leið til að takast á við þetta stóra verkefni er að vera opin með ferlið og opin fyrir því að nýta mér stuðning og þjónustu t.d. frá Krafti og Ljósinu. Einnig finnst mér gott að hafa dagskrá til að halda rútínu og nota góðu dagana til að gera eitthvað uppbyggjandi og skemmtilegt með vinkonum mínum og fjölskyldu,“ segir Hulda Halldóra. Hún nefnir eina áhugaverða leið til viðbótar sem nýtist henni.

Hulda Halldóra með sonum sínum tveimur.Aðsend

„Ég er stílisti og hef mikinn áhuga á tísku og fatnaði. Það hefur hjálpað mér að klæða mig upp áður en ég fer út, þó að það sé stundum ákveðin áskorun núna þegar að hárið er fokið. Ég klæði mig upp þegar ég fer í lyfjagjafir. Það er svolítið mín leið til að gefa skít í þennan vágest og tækla þetta á minn hátt.

Hún segist vera í góðum höndum á Landspítalanum og líta bjartsýn fram á veginn. Þá þakkar hún sérstaklega stuðninginn sem Kraftur hefur gefið henni.

Keramik og ræktin í algjöru uppáhaldi

„Kraftur hefur reynst mér mjög vel og þar hef ég kynnst frábærum stelpum sem eru að ganga í gegnum svipaða hluti og ég. Jafningjastuðningur er mjög mikilvægur og gott er að að geta deilt reynslu og rætt um hlutina sem við erum að ganga í gegnum. Kraftur býður upp á lyfjastuðning og alls konar sniðugt og uppbyggjandi sem kemur sér afar vel í þessum aðstæðum,“ segir Hulda Halldóra.

„Einnig verð ég að nefna Ljósið sem hefur gert mikið fyrir mig í endurhæfingu, þar er unnið algjörlega frábært starf líka. Keramik og ræktartímarnir eru í algjöru uppáhaldi.“

Hulda og Helga Ingibjörg sem greindist einnig með brjóstakrabbamein í fyrra.Kraftur

Hulda Halldóra er móðir tveggja ungra drengja. Aðspurð mælir hún með því að fólk í hennar stöðu leiti til fagaðila varðandi aðstoðar, meðal annars hvernig eigi að ræða við börnin. Þar reynist Kraftur, Krabbameinsfélagið og Ljósið vel.

„Þar er hægt að fá frábæra ráðgjöf sem við fjölskyldan nýttum okkur.“

Kraftur hefur til sölu Lífið er núna húfur til að samtökin geti stutt við ungt fólk með krabbamein og aðstandendur. Það er ekki hægt að sleppa Huldu Halldóru án þess að spyrja stílistann sjálfan hvernig henni finnist húfurnar, svörtu og appelsínugulu.

„Mér finnst þær æði, praktískar og klæðilegar fyrir alla. Svo er frábært að finna fyrir stuðningi frá vinum sem kaupa húfu og bara samfélaginu öllu. Þetta er frábær leið til að styrkja gott málefni sem skiptir okkur öll máli.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.