Jakob lýsti vonbrigðum sínum með þætti Ríkisútvarpsins og efaðist um nauðsyn þessa efnis: „Þetta er viðbjóður. Mér finnst þetta algerlega galið. Sko, forleikur. Hvað er forleikur? Skýrir það sig ekki nokkuð sjálft? Þarf að mata fólk af öllu? Ég væri frekar til í að hlusta á Ingva Hrafn á ÍNN tala um kynlíf frekar en þetta.“
Brot úr þáttunum má sjá í innslaginu hér að ofan, en þar lýsir fólk því hvað fullnæging er fyrir þeim. Umfjöllunin hefst á tólftu mínútu.
Jakob kveðst þrátt fyrir þetta ekki með öllu mótfallinn umfjöllun eða fræðslu um kynlíf, en segir að hann hafi væntingar um að Ríkisútvarpið geri það með fágaðri hætti ef það á yfirleitt að vera gert.
„Ef RÚV ætlar í dagskrárgerð um kynlíf einhvern veginn svona, til að höfða til fólks, væri ekki eðlilegra að þau myndu gera þetta á fágaðri hátt, á listrænni hátt og af dýpri skilningi og veita dýpri innsýn? Ég held að það væri fínt að hafa fjölmiðlamann í fararbroddi. Til dæmis Jón Ársæl.
Hann hefur sýnt að hann kann að tala við fólk og spyrja það spjörunum úr. Ég væri til í að sjá hann með þátt um kynlíf. Hann gæti heitið eftir Laxness-verki, eins og Jón Ársæll hefur gert,“ sagði Jakob og lagði til Atómstöðin, Undir Helgahnúk eða jafnvel Barn náttúrunnar.
Í kjölfarið lék Jakob það eftir af mikilli eftirhermulist hvernig Jón Ársæll myndi setja fram spurningar í svona þætti. Sjón er sögu ríkari í þeim efnum og vísast til innslagsins hér að ofan.