Körfubolti

„Mesta svekkelsi sem ég hef upplifað“

Sindri Sverrisson skrifar
Elvar Már Friðriksson átti stórkostlega undankeppni en leyndi ekki vonbrigðum sínum yfir því að lokaskot hans í keppninni skyldi ekki fara ofan í.
Elvar Már Friðriksson átti stórkostlega undankeppni en leyndi ekki vonbrigðum sínum yfir því að lokaskot hans í keppninni skyldi ekki fara ofan í. FIBA

„Ég er í smásjokki. Fá draumaskot til að komast á HM og það klikkaði. Ég get ekki mikið meira sagt en það,“ sagði Elvar Már Friðriksson algjörlega miður sín eftir að HM-draumurinn fjaraði út með grátlegasta hætti sem hugsast getur í Tbilisi í dag.

Ísland vann Georgíu á erfiðum útivelli með þremur stigum en þurfti fjögurra stiga sigur til að komast á HM og verða þar með minnsta þjóð sögunnar til að komast á mótið.

Ísland fékk lokasókn leiksins en skot Elvars, sem var frábær í leiknum líkt og fyrr í undankeppninni, rataði ekki ofan í.

„Jón Axel ræðst á körfuna og þeir falla allir inn í, og hann kemur með frábæra sendingu út, en boltinn rúllaði upp úr. Þetta er mesta svekkelsi sem ég hef upplifað,“ sagði Elvar í viðtali við RÚV.

Hann átti annars erfitt með að tjá tilfinningar sínar, tveimur mínútum eftir að hafa séð skot upp á sæti á HM fara í hringinn:

„Hausinn er bara í snúning núna og það er ekkert gáfulegt sem ég get sagt,“ sagði Elvar sem vitaskuld má vera stoltur af því hve Ísland var nálægt því að komast á HM eftir afar langa leið með ótal vörðum.

„Það er það sem svíður mest. Að standa í öllum þessum undirbúningi, allar þessar ferðir, allir þessir leikir, allt þetta fólk að leggja allt að mörkum til að komast á HM, og að ná ekki að skila þessu í höfn er frekar súrt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×