Um er að ræða tvenna tónleika sem fara fram í stóra salnum í Háskólabíó, klukkan 19:30 og 22:00 á föstudags- og laugardagskvöldi. Í samtali við Vísi segir Ingó tónleika sérstaka enda sé þetta í fyrsta sinn sem hann haldi tónleika sjálfur, en hingað til hafi hann aðeins komið fram á hátíðum, böllum og á einkasamkvæmum.

Selur miða í gegnum Facebook
Ingó segist hafa ákveðið að auglýsa hvergi tónleikana heldur sjá alfarið sjálfur um miðasöluna. Hún hafi gengið vel. Aðeins 300 miðar af 4000 séu nú eftir og stefnir allt í að það verði uppselt.
Aðspurður hvernig áhugasamir geti nálgast miða segir Ingó að best sé að senda sér skilaboð á Facebook. Hann geti sent miðana í pósti. Hann segir þó suma hafa komið við hjá sér, náð í miðana og fengið sér kaffibolla.
Allur fókus á gleði og skemmtun
Ingó hefur ekki komið mikið fram opinberlega síðustu tvö ár eftir að margvíslegar ásakanir um kynferðisofbeldi og áreitni voru settar fram á hendur honum. Hann hefur vísað ásökunum á bug og sagt þær ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum.
Ingó hefur, þrátt fyrir erfiða tíma undanfarið, góða tilfinningu fyrir tónleikunum og segist ekki kvíða neinu. Hann segist ekki hafa orðið var við neina gagnrýni heldur aðeins fengið góð viðbrögð, líkt og miðasalan staðfestir. Hljómsveitin sem verður á sviðinu með Ingó þekkja margir úr þáttunum Í kvöld er gigg sem sýndir voru á Stöð 2.
„Fernir tónleikar, flott hljómsveit, flottur salur. Þetta verður gleði og skemmtun og allur fókus á það og ekkert annað,“ segir Ingó.