Handbolti

Ásgeir Örn: Allir lélegir

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Ásgeir Örn Hallgrímsson var virkilega ósáttur við sína menn í kvöld.
Ásgeir Örn Hallgrímsson var virkilega ósáttur við sína menn í kvöld. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Haukar töpuðu í kvöld með fimm marka mun gegn Fram í Úlfarsárdal í 18. umferð Olís-deildarinnar. Lokatölur 35-30.

Leikurinn var jafn og spennandi allt þar til um tíu mínútur voru eftir af leiknum en þá var Fram tveimur mörkum yfir og Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, tók leikhlé. Eftir það leikhlé urðu Haukar einfaldlega gjaldþrota í allri sinni nálgun á leikinn. Framarar gjörsamlega keyrðu yfir þá og náðu mest sex marka forystu.

Aðspurður hvað hafi einfaldlega gerst síðustu mínútur leiksins hafði Ásgeir Örn þetta að segja.

„Frábær spurning, ég bara veit það ekki. Leikur okkar bara algjörlega hrynur, bara alls staðar á vellinum hvort sem það er vörn eða sókn. Við hendum bara boltanum til þeirra og við bara gefum þeim þetta.“

Lykilmenn í Hauka liðinu eins og leikstjórnendurnir Tjörvi Þorgeirsson og Andri Már Rúnarsson gjörsamlega koðnuðu niður á þessum kafla. Ásgeiri Erni fannst þó allt liðið í raun klikka.

„Mér fannst bara allir klikka í þessum leik, bara allir lélegir.“

Næsti leikur Hauka er einmitt gegn Fram í undanúrslitum Powerade-bikarsins þann 16. mars. Ásgeir Örn gerir kröfu á að leikmenn sínir geri betur í þeim mikilvæga leik.

„Ég ætla bara rétt að vona að mínir menn ætli ekki að sína svona frammistöðu eftir tvær vikur, það er alveg ljóst,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson að lokum.


Tengdar fréttir

Leik lokið: Fram - Haukar 35-30 | Haukar að missa af pakkanum

Fram vann sterkan fimm marka sigur er liðið tók á móti Haukum í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Með sigrinum stukku Framarar upp í þriðja sæti deildarinnar, en Haukar eru að missa af hinum þétta pakka sem er frá þriðja sæti og niður í það sjöunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×