Grjótið er glænýr útvarpsþáttur félaganna Guðjóns Smára og Snæþórs Bjarka Jónssonar. Þátturinn hóf göngu sína nú í mars og er hann á dagskrá alla miðvikudaga á milli 14 og 16.
Þeir sem fylgdust með Idolinu vita að það er aldrei langt í húmorinn hjá Guðjóni og verður þátturinn í takt við það.
„Þetta er svolítið mikið sprell. Við reynum að gera reglulega símaat og svona hluti sem er auðvelt að detta inn í. Þetta er bara svona léttur gamanþáttur,“ segir Guðjón í samtali við Vísi. Þeir stefna einnig á að fá reglulega til sín góða gesti.
Guðjón og Snæþór kynntust þegar þeir urðu vinnufélagar í Reykjadal fyrir um tveimur árum síðan. Þeir smullu strax saman og fóru fljótlega að ræða þá hugmynd að byrja með útvarpsþátt en það hafði lengi verið draumur Guðjóns.
„Þetta var einmitt það sem ég var að leitast eftir með Idol-fjörinu. Mig langaði bara að koma mér á framfæri svo ég gæti komist í útvarpið, dagskrárgerð eða eitthvað annað skemmtilegt.“
Guðjón hefur þó ekki sagt skilið við tónlistina, því hann er með nokkur járn í eldinum. Hann og Snæþór eru ekki bara að stýra útvarpsþætti saman, heldur eru þeir einnig að vinna að tónlist.
„Við erum að búa til svona klúbba-bangera fyrir þáttinn og okkur langar að fara að taka að okkur að gigga á böllum og svona,“ segir Guðjón að lokum.
Hér fyrir neðan má heyra stórskemmtilegan símahrekk sem þeir félagar gerðu í þættinum nú á dögunum.