Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans kom ekki á óvart – búist var við að nefndin myndi ræða á bilinu 50 til 100 punkta hækkun – heldur laut óvissan aðeins að því hversu stórt skref yrði tekið í þetta sinn í ljósi „mikillar og þrálátrar verðbólgu, minna taumhalds peningastefnunnar, akkerislausra verðbólguvæntinga, blæðandi ríkisfjármála og kröftugrar einkaneyslu,“ segir Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion í bréfi sem hún sendi á fjárfesta og markaðsaðila í gær og Innherji hefur undir höndum.
Hún nefnir að það hafi vakið sérstaka athygli að ekki þótti tilefni til að minnast á ríkisfjármálin í yfirlýsingu nefndarinnar – ólíkt síðasta fundi hennar febrúar – enda þótt ný fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verði kynnt í næstu viku. Þá segir Erna það hafa komið á óvart hversu „stutt og þunn“ yfirlýsingin var sem hafi sömuleiðis slegið tóninn fyrir kynningarfundinn sem var í styttri kantinum.
Ég hefði ætlað að þegar verðbólgan er jafn mikil og raun ber vitni og vextir hækkaðir um 100 punkta, að nefndin myndi eyða meira púðri í yfirlýsinguna og mæta kokhraust og sjálfsörugg til leiks – með kassann úti ef svo mætti að orði komast. Því miður varð það ekki raunin.
Nefndin vísaði meðal annars til þess í rökstuðningi sínum að innlend eftirspurn væri að aukast meira en gert var ráð fyrir og þá væri enn „töluverð“ spenna á vinnumarkaði. Við þessar aðstæður sé mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags, sérstaklegar þegar litið væri til spennu í þjóðarbúinu og komandi kjarasamninga.
„Sjálf hefði ég ætlað að þegar verðbólgan er jafn mikil og raun ber vitni og vextir hækkaðir um 100 punkta, að nefndin myndi eyða meira púðri í yfirlýsinguna og mæta kokhraust og sjálfsörugg til leiks – með kassann úti ef svo mætti að orði komast . Því miður varð það ekki raunin, og í stað þess bauð hálf niðurlútur seðlabankastjóri upp á stuttan fund og fátt um svör,“ skrifar hún í bréfinu, en bætir hins vegar við að stuttur kynningarfundur sé ekki endilega af hinu slæma – og fagnar því að lítið hafi verið um „útúrdúra, boltasendingar og Tene-tásur.“
Erna segir að hún hefði kosið skýrari svör – „eða hreinlega svör“ – á fundinum, sérstaklegar þegar kemur að breyttri framvirkri leiðsögn, og því verið litlu nær hvort tónninn væri harðari eða mildari en áður sem gæti þá gefið vísbendingar um hvort vextir yrðu hækkaðir á ný á næsta fundi nefndarinnar í maí eða ekki.
Að sögn Ernu hafi Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri hins vegar komist næst slíkri útskýringu þegar hún lokaði fundinum í gær.
„Ég vona að síðasta setningin í framsýnu leiðsögninni sé nægilega skýr þó hún sé ekki eins höst eins og síðast. Við munum gera það sem þarf til þess að ná verðbólgu í markmið. Það er okkar hlutverk, hversu sársaukafullt það kann að vera fyrir einhverja,“ kom þá fram í máli Rannveigar.
Á sama tíma gagnrýnir Erna rýra leiðsögn Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og vitnar til orða hans á fundinum um að nefndin hafi „ákveðið að stíga stór skref núna til að ná tökum á verðbólgu og verðbólguvæntingum. Við vorum í rauninni að hraða því að verðbólgan geti farið niður. Við verðum að sjá hvað framtíðin ber í skauti sínu varðandi frekari aðgerðir.“
Af þeim sökum segist Erna spyrja sig – enn og aftur – hversu „mikil togstreita sé innan nefndarinnar.“
Eins og ég les í stöðuna þá liggur nefndinni að einhverju leyti á að sýna fram á árangur fyrir næstu kjarasamninga, en einnig að „rífa plásturinn af“ með stóru skrefi núna.
Hún telur að peningastefnunefndinni liggi að einhverju marki á að „sýna fram á árangur fyrir næstu kjarasamninga“ – verðbólgan mælist núna 10,2 prósent – og taki því ákvörðun um að „rífa plásturinn af“ með stóru skrefi núna.
„Miðað við stöðuna á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er ómögulegt að segja til um hvað aðrir seðlabankar muni gera á komandi mánuðum. Því væri betra í huga nefndarinnar að koma fram af festu í dag, áður en aðrir seðlabankar skipta hugsanlega um gír. Nefndin er þannig búin að opna á möguleikann að taka minna skref í maí – eða jafnvel bíða og sjá ef tölurnar bjóða upp á það,“ að sögn Ernu.
Hins vegar telur aðalhagfræðingur Arion banka, með hliðsjón af því að „gagnadrifin peningastefnunefnd“ sé komin fram á sjónvarsviðið á nýjan leik og útlit fyrir að verðbólgan yfir níu prósent þegar nefndin kemur saman næst í maímánuði, ólíklegt að 100 punkta vaxtahækkunin í þetta sinn sé lokahnykkurinn.
Þannig vísar hún til þess að nefndin sé núna rétt búin að ná jákvæðum raunstýrivöxtum miðað verðbólguvæntingar – sem Erna nefnir að virðist vera „keppikefli“ peningastefnunefndar – og að enn sé langt í land í svonefnda jafnvægisraunstýrivexti sem eru opinberlega metnir vera 1,25 prósent.
Af þeim sökum segist Erna allt eins eiga von á því að „boðið verði upp á“ 50 punkta vaxtahækkun í maí sem myndi fara með vexti Seðlabankans upp í 8 prósent.
Þrátt fyrir vaxtahækkun Seðlabankans í gær þá eru raunvextir enn verulega neikvæðir miðað við mælda verðbólgu sem dregur úr hvata fyrir heimili og fyrirtæki að draga úr eða fresta neyslu og auka þess í stað sparnað. Aðspurður hvort það væri ekki vísbending um að Seðlabankinn þyrfti að gera meira sagði seðlabankastjóri að vissulega væri það „möguleiki“ í viðtali við Innherja í gær.
„Það sem hefur verið að gerast undanfarið, í hverri mælingunni á fætur annarri, er að verðbólgan hefur verið yfir væntingum. Ef sú þróun heldur áfram þá er ljóst að við munum þurfa að grípa til frekari aðgerða,“ segir Ásgeir, og nefnir að sama staða sé uppi í mörgum öðrum löndum í kringum okkur þar sem verðbólgan ætlar að reynast þrálátari en áður var talið.
„Það er enda enginn seðlabanki sem er hættur að hækka vexti. Allir eru áfram í vaxtahækkunarferli, en við erum þar að einhverju marki á undan öðrum,“ nefndir Ásgeir.
Í gær hækkaði Seðlabanki Bandaríkjanna vexti sína um 25 punkta – þeir eru núna á bilinu 4,75 til 5 prósent – og seðlabankar Noregs og Sviss fylgdu einnig í kjölfar í morgun. Þá er búist við að Englandsbanki hækki sína vexti síðar í dag úr 4 prósentum í 4,25 prósent.