Að vera ástfangin og elska hefur margvísleg áhrif á heilabúið okkar. Það er því ekkert að undra þótt okkur líði svona dásamlega þegar við erum ástfangin.
Og líður eins og við séum á bleiku skýi…
Samkvæmt rannsóknum má að mörgu leyti líkja upplifuninni sem við finnum þegar við erum á bleiku skýi við sambærilega líðan og þegar fólk upplifir vímu.
Þá er því haldið fram að þessi vellíðan sem við upplifum af því að vera ástfangin sé í raun það sem hvetur okkur til að halda áfram að elska: Heilinn upplifir það mikil jákvæð áhrif að við viljum ekki sleppa þessari tilfinningu.
Þótt okkur finnist öllum hræðilegt að lenda í ástarsorg, sýna rannsóknir þó að 71% okkar náum okkur að mestu innan þriggja mánaða.
Mörgum gæti fundist þetta stuttur tími miðað við sína eigin reynslu en þótt hér sé verið að tala um þrjá mánuði, er ekki verið að tala um að eftir þrjá mánuði séu allar tilfinningar horfnar tengt þessari ást. Það geta enn verið blendnar tilfinningar, jafnvel sársaukatilfinning, reiði eða vonsvikni. Það sem rannsóknirnar eru hins vegar að sýna að það er innan þessara þriggja mánaða sem við erum farin að átta okkur á því að við munum hafa þetta af og jafna okkur á endanum.
En þá er það fyrsta ástin okkar.
Sem fæst okkar gleyma. Eða hvað?
Rannsóknir um áhrif ástarinnar á heilann skýra í raun líka út hvers vegna við gleymum aldrei fyrstu ástinni okkar. Því þessi áhrif ástarinnar sem líkja má við vímu, virka þannig á heilann að við finnum til sömu tilfinningar og drifkraftar og almennt finnst í fíknisjúkdómum.
Já: Heilinn okkar vill finna þessa dásamlegu tilfinningu aftur. Þess vegna erum við ósjálfrátt svona oft að leita af ástinni. Við viljum vera ástfangin.
Og ástæðan fyrir því að fyrsta ástin okkar gleymist svona seint er vegna þess að heilinn gleymir allra síst fyrsta skammtinum sínum af þessari vellíðan sem ástin gefur.
Annað atriði sem er áhugavert varðandi fyrstu ástina okkar er hvaða áhrif hún er sögð hafa á önnur og síðari ástarsambönd okkar á lífsleiðinni.
Því samkvæmt sálfræðingnum, sambandsráðgjafanum og rithöfundinum Dr. Niloo Dardashti, virðist það vera svo að það hvernig við hegðum okkur eða upplifum ástarsambönd, er oftar en ekki að endurspegla eitthvað sem við upplifðum þegar við urðum ástfangin í fyrsta sinn.
Á þetta við um þig?
Áskorun er nýr efnisflokkur á Vísi þar sem við munum fjalla á mannlegan hátt um málin þar sem við tökumst á við okkur sjálf, mál innan fjölskyldunnar, önnur samskipta- og/eða tilfinningatengd mál, veikindi, fíkn, bata, sorg, dauða, aldurstengd mál og fleira.