Sport

Sigursteinn: Nýttum tækifærin fyrir framan okkur vel

Andri Már Eggertsson skrifar
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var ánægður með sigurinn
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var ánægður með sigurinn Vísir/Vilhelm

FH vann níu marka sigur á Selfyssingum 24-33. Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var afar ánægður með sigurinn og var spenntur fyrir undanúrslitunum þar sem FH mætir ÍBV.

„Ég var mjög ánægður með sigurinn þetta var ljúft. Ég var hrikalega ánægður með liðið mitt í dag eins og flest alla daga svo sem en þetta var ótrúlega sterk frammistaða og ég var mjög ánægður með leikinn,“ sagði Sigursteinn Arndal eftir leik.

Sigursteinn var afar ánægður með hvernig FH byrjaði leikinn og náðu snemma góðu forskoti.

„Við vorum með tækifæri fyrir framan okkur sem við ætluðum að taka. Við undirbjuggum okkur vel fyrir leik og nýttum tækifærin sem voru fyrir framan okkur.“

Það gekk allt upp hjá FH-ingum í fyrri hálfleik. Sigursteinn Arndal var afar ánægður með varnarleik FH þar sem Selfoss skoraði ekki í tæplega tíu mínútur.

„Við spiluðum frábæra vörn og auðvitað var Phil [Döhler] að verja vel og við gerðum vel í að refsa Selfyssingum.“

Sigursteinn var ánægður með hvernig FH lét ekki góða byrjun Selfyssinga í seinni hálfleik slá sig út af laginu.

„Við lögðum mikið upp með að halda okkar skipulagi sama hvað myndi gerast í seinni hálfleik. Þetta er erfiður útivöllur og Selfoss hefur náð í ótrúleg úrslit á sínum heimavelli.“

FH mætir ÍBV í undanúrslitum og Sigursteinn var spenntur fyrir komandi verkefni.

„Við munum halda áfram. Við höfum spilað hörkuleiki við ÍBV upp á síðkastið og ég á ekki von á að það verði breyting á því,“ sagði Sigursteinn Arndal að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×