Innherji

Hamrar og BKP Invest bætast við hluthafahóp OZ

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Baldur Stefánsson var framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kviku banka í fimm ár áður en hann kom að stofnun Hamra fyrr í vetur.
Baldur Stefánsson var framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kviku banka í fimm ár áður en hann kom að stofnun Hamra fyrr í vetur. Ljósmynd/Aðsend

Sérhæfða ráðgjafar- og fjárfestingafélagið Hamrar Capital Partners og BKP Invest, fjárfestingafélag í eigu Bjarna Kristjáns Þorvarðarsonar og Ken Peterson, hafa bæst við hluthafahóp gervigreindarfyrirtækisins OZ. Fyrirtækið og lykilhluthafar þess hafa einnig gert samning við Hamra um ýmsa þjónustu sem miðar að því að auka virði OZ á næstu árum.

Baldur Stefánsson, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kviku banka í fimm ár áður en hann kom að stofnun Hamra fyrr í vetur, tekur í kjölfarið við stjórnarformennsku í OZ.

„Í grunninn snýst viðskiptamódel Hamra um fyrirtækjaráðgjöf en við tökum líka að okkur lengri samstarfsverkefni sem fela í sér að við hjálpum stjórnendum með margvíslegum hætti við að byggja upp félög og virði þeirra yfir lengri tíma. Okkar stóri hvati er síðan að veita ráðgjöf í útgöngunni, hvort sem hún verður sala félagsins eða skráning,“ segir Baldur í samtali við Innherja.

Kerfið er þannig búið að komast að miklu leyti yfir þekkinguna sem býr í kolli útsendingarstjórans

OZ sérhæfir sig í gervigreindartækni byggðri á tölvusjón og hefur tæknin verið í þróun síðustu fjögur árin en fyrsta lausn fyrirtækisins er nú tilbúin til innleiðingar. Lausnin nefnist OZ Smart Stadium og nýtir myndavéla- og gervigreindarhugbúnað sem settur er upp varanlega á knattspyrnuvöllum til að senda út knattspyrnuleiki í hámarksgæðum.

„Stóra myndin er sú mikla framþróun sem hefur átt sér stað á sviði gervigreindar. Menn hafa bundið vonir við að gervigreind breyti atvinnulífinu undanfarin fimmtán eða tuttugu ár en sú bylting hefur þó látið á sér standa. Það virðist hins vegar vera að núna á allra síðustu misserum eru að koma fram lausnir þar sem tæknin er orðin þroskaðri. Stjórnendur OZ sýndu okkur fram á að þeirra lausn virkar þegar vel og hefur frábæra framtíðarmöguleika,“ segir Baldur.

OZ Smart Stadium kerfið hefur verið í þróun frá árinu 2018 og hafa yfir 300 leikir þegar verið sendir út erlendis í samstarfi við FIFA. Gervigreindartækni OZ hefur á síðastliðnum fjórum árum lært, ef svo má að orði komast, hvernig myndavélar fylgja atburðarás knattspyrnuleikja og hvernig skipt er á milli myndavéla í útsendingum.

Kostnaðalækkunin opnar á möguleika á að senda út viðburði sem áður voru sendir út í takmörkuðum gæðum eða jafnvel alls ekki

„Kerfið er þannig búið að komast að miklu leyti yfir þekkinguna sem býr í kolli útsendingarstjórans,“ segir Baldur. Með því að fækka þeim tækni- og kvikmyndatökuaðilum sem í dag koma að sambærilegum útsendingum niður í einn útsendingastjóra, sem ekki þarf að vera staðsettur á leikvanginum, getur OZ boðið rétthöfum eins og sjónvarpsstöðvum, deildum, knattspyrnusamböndum og félagsliðum, möguleika á að senda út fleiri leiki og í hámarksmyndgæðum, fyrir brot af núverandi kostnaði.

Eftir að hafa setið í stjórn knattspyrnudeildar Knattspyrnufélags Reykjavíkur í tæp tuttugu ár þekkir Baldur af eigin raun hversu dýrt er að senda út knattspyrnuleiki í góðum gæðum, sérstaklega þá sem skapa minni tekjur.

„Kostnaðalækkunin opnar á möguleika á að senda út viðburði sem áður voru sendir út í takmörkuðum gæðum eða jafnvel alls ekki, svo sem leikir neðri deilda og yngri iðkenda. Og við erum mjög spenntir fyrir því að nýta tæknina til að lyfta upp kvennadeildum hér heima og erlendis sem hafa hingað til ekki getað notið þess að allir leikir séu sendir út. Nú er það hægt með miklu minni tilkostnaði og það mun gerbreyta tekjumyndarmöguleikum kvennadeilda.“

OZ hefur nýlega gengið frá samningum um að senda út leiki á Íslandi í samstarfi við Íslenskan Toppfótbolta og verður búnaðurinn settur upp á 13 keppnisvöllum fyrir komandi sumar 2023. Í kjölfarið verður unnið að því að koma tækninni á framfæri á alþjóðamarkaði og væntir Baldur þess að að hægt verði að færa fréttir af erlendum uppsetningum kerfisins á næstu mánuðum.   

Hamrar Capital Partners og BKP Invest eru fyrstu fjárfestarnir í OZ sem koma inn í svokallaðri hlaupandi fjármögnunarumferð sem þýðir að fjármögnunin hefur ekki afmarkaðan tímaramma. Fjárfestar geta þannig komið inn á mismunandi tímapunktum en verðmiðinn getur tekið breytingum í millitíðinni.

Þetta er annað stóra verkefnið sem hið nýstofnaða Hamrar Capital Partners tekur að sér en í desember var greint frá því að ráðgjafarfyrirtækið myndi halda halda utan um undirbúning skráningarferlis Algalífs, sem ræktar örþörunga á Ásbrú í Reykjanesbæ og stefnir á markað á árinu 2025. 

Fjárfestingafélagið BKP Invest er á meðal stærstu hluthafa lyfjafyrirtækisins Coripharma, þar sem Bjarni er stjórnarformaður, en hann er einnig í stjórn Símans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×