Eyjamenn gerðu sér lítið fyrir og báru sigur úr býtum í leik liðsins gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í Bestu deild karla í dag en leikurinn var spilaður á heimavelli ÍBV, Hásteinsvelli.
Um er að ræða náttúrulegan grasvöll og í færslu sem birtist á opinberri stuðningsmannasíðu Breiðabliks á Twitter fyrir leik virtust þeir vera nokkuð sáttir með þær aðstæður sem boðið yrði upp á miðað við árstíma.
„Völlurinn lítur ágætlega út miðað við árstíma og árferði,“ sagði í fyrstu færslunni sem birtist frá stuðningsmönnum Blika.
Allt annað hljóð kom hins vegar í strokkinn eftir leik og birtist þá önnur færsla á umræddri stuðningsmannasíðu Blika á Twitter.
„Oft reynist flagð undir fögru skinni,“ stóð í þeirri færslu.
Tap Breiðabliks, sem er ríkjandi Íslandsmeistari karla, er annað tap liðsins á tímabilinu í fyrstu þremur umferðum Bestu deildarinnar.
Oft reynist flagð undir fögru skinni https://t.co/U5cbwIa6PI
— Blikar.is / Íslandsmeistarar 2022 (@blikar_is) April 23, 2023