Í umfjöllun New York Times kemur fram að fyrirhugaður samruni fyrirtækjanna hafi verið hugsaður sem sá stærsti í sögunni. Activision Blizzard framleiðir nokkrar arðbærustu tölvuleikjaseríur veraldar líkt og Call of Duty, Diablo, World of Warcraft og Overwatch.
Þar segir ennfremur að forsvarsmenn Microsoft hafi ekki náð að lægja áhyggjur breska samkeppniseftirlitsins af áhrifum yfirtökunnar á samkeppnismarkað í tölvuleikjaframleiðslu þar í landi. Áður hafði bandaríska fjármálaeftirlitið ákveðið að höfða mál gegn fyrirtækinu vegna samrunans og forsvarsmenn Evrópusambandsins einnig lýst sig mótfallna honum.
„Microsoft nýtur nú þegar mikils forskots fram yfir aðra samkeppnisaðila og þessi samningur myndi auka það forskot til muna og grafa undan nýjum aðilum á markaðnum,“ hefur New York Times eftir Martin Coleman, formanni nefndar á vegum breskra samkeppnisyfirvalda sem skoðaði samrunann.
Vísar hann sérstaklega til samkeppnis á streymismarkaði tölvuleikja en æ algengara er að tölvuleikjum sé streymt beint í tölvur, í stað þess að notendur niðurhali leikjum, líkt og um sjónvarpsefni væri að ræða.
Framkvæmdastjóri Microsoft, Brad Smith, segist vonsvikinn vegna ákvörðunarinnar. „Sérstaklega eftir langar viðræður við yfirvöld. Þessi ákvörðun byggir á grundvallarmisskilningi um þennan markað og hvernig samkeppni virkar á streymismarkaði.“