Handbolti

„Þurfum aðeins að breyta kúltúrnum“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Bjarki Már Elísson í leik með íslenska landsliðinu í janúar á þessu ári, á HM í Svíþjóð.
Bjarki Már Elísson í leik með íslenska landsliðinu í janúar á þessu ári, á HM í Svíþjóð. EPA-EFE/Adam Ihse

Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætir Ísrael í síðasta útileik liðsins í undankeppni EM í Tel Aviv í dag.

Leikurinn fer fram í Drive Inn höllinni sem tekur 3500 manns í sæti. Íslenska liðið er á toppnum í riðlinum og tryggir sér sigur í honum með því að vinna tvo síðustu leiki sína en sá síðasti verður á móti Eistlandi í Laugardalshöllinni á sunnudaginn.

„Við viljum klára síðustu tvo leikina í undankeppninni með stæl og tryggja okkur farseðilinn á EM. Við viljum síðan vinna sigur í riðlinum. Við erum bara vel stemmdir og ætlum okkur sigur í báðum leikjunum.“

Leikmenn liðsins eru staðráðnir í því að snúa við döpru gengi á útivelli.

„Það er eitthvað sem við erum alveg meðvitaðir um að breyta. Við höfum alveg rætt það og við þurfum aðeins að breyta kúltúrnum finnst mér persónulega, hvernig við mætum í þessa leiki og þá sérstaklega á útivelli. Þar hefur árangurinn ekki verið nægilega góður og þessu verðum við að breyta og þá þarf að breyta ákveðnu hugarfari. Eins og við sáum Tékka leikinn úti síðast, það var bara eingöngu hugarfar.“

Bjarki segir að leikurinn á morgun sé algjör skyldusigur fyrir íslenska liðið.

„Við erum einfaldlega með sterkara lið. Vissulega vantar einhverja pósta hjá okkur en við ætlum okkur að vinna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×