Hin 34 ára Ashten, sem hét réttu nafni Christina Ashten Gourkani, var fædd árið 1988 í Bandaríkjunum og var af írönskum uppruna. Hún var að jafna sig á lýtaaðgerð þegar hún lést sviplega 20. apríl síðastliðinn.

Gourkani starfaði sem áhrifavaldur og fyrirsæta og var með yfir 620 þúsund fylgjendur á Instagram. Hins vegar var hún þekktust fyrir að vera ískyggilega lík hinni heimsfrægu Kim Kardashian.
Fjölskylda Gourkani greindi frá andlátinu á GoFundMe-síðu þar sem þau eru að safna fyrir jarðarför hennar sem fer fram í næstu viku.
Á síðunni segir að fjölskyldan hafi fengið hræðilegt símtal aðfaranótt fimmtudags þar sem fjölskyldumeðlimur á hinum enda línunnar öskraði í sífellu „Ashten er að deyja“.
Símtalið hafi splundrað veröld fjölskyldunnar og muni ásækja meðlimi hennar það sem eftir lifir.
Í tilkynningu sem fjölskylda Gourkani birti um andlát hennar segir að verið sé að rannsaka andlát hennar sem manndráp vegna læknismistaka sem urðu henni að bana.