Viðskipti innlent

Davíð tekur við af Árna sem fram­kvæmda­stjóri Gildis

Bjarki Sigurðsson skrifar
Frá vinstri: Davíð Rúdólfsson, Árni Guðmundsson og Stefán Ólafsson.
Frá vinstri: Davíð Rúdólfsson, Árni Guðmundsson og Stefán Ólafsson. Gildi

Stjórn Gildis-lífeyrissjóðs hefur gengið frá ráðningu á nýjum framkvæmdastjóra sjóðsins. Mun það vera Davíð Rúdólfsson en hann hefur starfað hjá sjóðnum síðan árið 2008. 

Davíð tekur við um næstu áramót og mun þá Árni Guðmundsson láta af störfum eftir að hafa verið hjá sjóðnum síðastliðið 41 ár. Hann hefur verið framkvæmdastjóri síðan árið 2005.

„Ég óskaði eftir því við stjórn sjóðsins á dögunum að fá að láta af störfum eftir að hafa starfað í rúmlega 41 ár hjá sjóðnum. Mér finnst þetta réttur tímapunktur fyrir þessa breytingu, staða Gildis er sterk, starfsemin traust og ég get því gengið sáttur frá borði,“ er haft eftir Árna í tilkynningu. 

Davíð hefur gegnt stöðu forstöðumanns eignastýringar hjá Gildi síðan árið 2010 og hlutverki staðgengils framkvæmdastjóra síðan árið 2016. Fyrir það starfaði hann meðal annars hjá Íslandsbanka, Kaupþingi og Gnúpi fjárfestingafélagi. hann er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. 

„Ég þakka traustið sem mér er sýnt af hálfu stjórnar. Ég þekki vel til sjóðsins og þess öfluga starfsfólks sem hjá honum starfar og hlakka til að taka að mér þetta nýja hlutverk,“ segir Davíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×