„Nína og Áslaug hlupu saman í Reykjavíkurmaraþoninu 2012 með mömmu á hliðarlínunni en tveimur mánuðum síðar lést hún. Nína sá svo nýja hlaupastóla sem Palli Líndal vinur okkar safnaði fyrir og gaf Reykjadal í fyrra og lagði til að við myndum endurtaka leikinn,“ segir í viðburði um hlaupið á Facebook.

Öll geti tekið þátt í hlaupinu, engin tímataka verði, ganga megi og hlaupa, með vagn eða bara sjálfan sig. Í boði verði líka að taka styttri hring, enda sé hlaupið aðallega ætlað til skemmtunar.
Þá ætla systkinin að safna fyrir Einstök börn, stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni. Helmingur þess fjár sem safnast mun renna til Systkinasmiðjunnar, alþjóðlegs stuðningsúrræðis fyrir systkini veikra eða fatlaðra barna, sem er í samstarfi við Einstök börn.
Nína, sem er yngst í hópnum, er með sjaldgæfan sjúkdóm sem veldur því að hún getur ekki gengið. Að sögn Magnúsar mun Áslaug Arna, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, því ýta systur sinni á undan sér í sérútbúnum hjólastól, sem þau fengu að láni frá Reykjadal.
Lagt verður af stað frá Hafnartorgi, fyrir framan Kolaportið klukkan 11 á morgun og mæting er hálftíma fyrr, ef veður leyfir.
Nánari upplýsingar um skráningu og áheit má finna hér.