Úrslitin á undankvöldum Eurovision hafa nú um árabil verið kynnt keppendum, og Evrópu, þannig að keppendurnir sitja í rými baksviðs, umkringdir fylgdarliði sínu. Þannig hafa þeir annað hvort fagnað úrslitunum eða harmað þau í faðmi félaga sinna, eins og hér sést dæmi um úr undanúrslitum 2021.
En, taka átti upp nýtt fyrirkomulag í keppninni í ár. Gísli Marteinn Baldursson, íslenski lýsandi Eurovision, segir fyrirhugað fyrirkomulag hafa verið í anda Idol stjörnuleitar.
„Idol-style. Engar bakraddir eða dansara. Og þau sem kæmust áfram færu af sviðinu eitt og eitt. Eftir stæðu svo bara þau sem kæmust ekki,“ segir Gísli Marteinn á Twitter.
Hin nýja uppsetning fékk vægast sagt dræmar undirtektir á búningaæfingu hér í Eurovision-höllinni í Liverpool í gær. Og EBU (Samband evrópskra sjónvarpsstöðva) tilkynnti snarlega að því yrði slaufað.
„Þetta var prófað í dag og aðdáendur keppninnar (og ýmis hærra sett) mótmæltu svo hraustlega að það var hætt við og þetta verður gert einsog venulega með öll í græna. Mikil gleði með þessa breytingu og að yfirstjórnin hafi hlustað,“ segir Gísli Marteinn.
Þetta var prófað í dag og aðdáendur keppninnar (og ýmis hærra sett) mótmæltu svo hraustlega að það var hætt við og þetta verður gert einsog venulega með öll í græna. Mikil gleði með þessa breytingu og að yfirstjórnin hafi hlustað. 2/2 #12stig
— Gísli Marteinn (@gislimarteinn) May 8, 2023
Eurovísir fylgist með gangi mála úti í Liverpool. Fréttamaður fór yfir stemninguna í borginni í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær - og velti því meðal annars upp hvort Bretar séu orðnir raunverulegir Eurovision-aðdáendur eftir að hafa verið í mótþróa gagnvart keppninni um árabil.